Þingiðn, félag iðnaðarmanna hefur með bréfi til Laganefndar Alþýðusambands Íslands gert alvarlegar athugasemdir við samþykktar breytingar á félagslögum Félags málmiðnarmanna á Akureyri. Þannig er að ef stéttarfélög gera breytingar á sínum félagslögum þarf Laganefnd ASÍ að taka þær fyrir áður en þær taka gildi hjá viðkomandi stéttarfélögum enda samþykki laganefndin breytingarnar.
Félagssvæði Félags málmiðnarmanna á Akureyri náði áður yfir nokkur sveitarfélög við Eyjafjörð. Með samþykktum breytingum á aðalfundi félagsins, væntanlega 2015, er félagssvæðið stækkað verulega. Það er að það nái yfir allt Norðurland frá og með Húnaþingi vestra til og með Langanesbyggð í austri. Það þýðir að félagssvæði Þingiðnar er undir sem eru sveitarfélögin, Norðurþing, Skútustaðahreppur, Þingeyjarsveit og Tjörneshreppur. Félagssvæði Verkalýðsfélags Þórshafnar er einnig undir en innan félagsins er iðnaðarmannadeild og er félagið því með aðild að Samiðn fyrir þennan hóp félagsmanna.
- gr. laga Félags málmiðnarmanna á Akureyri er svohljóðandi:
Félagið heitir Félag málmiðnaðarmanna Akureyri, skammstafað FMA.
Félagssvæði þess er, Norðurland frá og með Húnaþingi vestra til og með Langanesbyggð.
Félagið er aðili að Samiðn sem er aðili að Alþýðusambandi Íslands.
Heimili félagsins og varnarþing er á Akureyri.
Þingiðn er kunnugt um að Samiðn hafi fengið málið til umsagnar á sínum tíma en ekki gert athugasemdir við þessar breytingar sem vekur reyndar furðu þar sem troðið er á tveimur aðildarfélögum sambandsins.
Þingiðn var ekki kunnugt um þessar breytingar á lögum Félags málmiðnarmanna á Akureyri fyrr en á dögunum þegar auglýsingar birtust frá félaginu á Sjónvarpsstöðinni N4 þar sem auglýst er að félagsvæðið nái yfir allt Norðurland, þar á meðal yfir félagssvæði Þingiðnar. Á sínum tíma var ekki leitað umsagnar Þingiðnar á þessum breytingum á lögum Félags málmiðnarmanna á Akureyri sem er athyglisvert í ljósi þess að um félagssvæði Þingiðnar er um að ræða.
Mikil reiði er meðal félagsmanna Þingiðnar með yfirgang Félags málmiðnarmanna á Akureyri og endurspeglast í breytingum á lögum félagsins. Ljóst er að Samiðn skuldar Þingiðn skýringar á afstöðu sambandsins til málsins.
Með bréfi Þingiðnar til Laganefndar Alþýðusambands Íslands er þess vænst að nefndin taki erindi Þingiðnar fyrir og kveði á um hvort vinnubrögð sem þessi teljist eðlileg í ljósi þess að ákveðið félag yfirtekur félagssvæði annars félags með breytingum á félagslögum í skjóli ASÍ. Þá telur Þingiðn að þetta sé á skjön við þær starfsreglur sem gilt hafa um félagssvæði stéttarfélaga innan Alþýðusambands Íslands og friður hefur verið um. Málið verður tekið fyrir á aðalfundi Þingiðnar síðar í þessum mánuði.