Samherji svarar kalli Framsýnar -fiskvinnslufólki bætt upp tekjutap í verkfalli-

 

Eftir ábendingar frá starfsmönnum í landvinnslum Samherja gerði Framsýn alvarlegar athugasemdir við fullyrðingar fyrirtækisins þess efnis að starfsmenn kæmu mun betur út með því að vera á atvinnuleysisbótum í verkfalli sjómanna í stað þess að vera á kauptryggingu hjá fyrirtækinu. Þessi fullyrðing var sett fram í bréfi til starfsmanna Samherja  í desember 2016 þegar verkfall sjómanna hófst og fyrirtækið tók ákvörðun um að taka starfsmenn út af launaskrá vegna verkfallsins og vísa þeim á atvinnuleysisbætur.

Framsýn mótmælti þessari ákvörðun og skoraði á Samherja að halda starfsmönnum sínum á kauptryggingu. Þá lagði félagið fram útreikninga sem sýndu fram á verulegt tekjutap og réttindamissi stæði fyrirtækið við sína ákvörðun. Meðal þess sem var bent var á var að sumarorlofið skertist sem og  orlofs- og desemberuppbæturnar. Þá ættu ekki allir rétt á atvinnuleysisbótum með tilheyrandi tekjumissi.

Á þeim tíma átti formaður Framsýnar í viðræðum við forsvarsmenn Samherja vegna málsins og gerðu þeir ekki athugasemdir við launaútreikninga félagsins eða aðrar athugasemdir er snéru að fullyrðingum Framsýnar um réttindamissi starfsmanna. Þeir fullvissuðu hann um að allt yrði gert til að tryggja að starfsmenn kæmu ekki ver út með því að fara þá leið sem fyrirtækið valdi að fara, í stað þess að halda starfsmönnum á kauptryggingu hjá fyrirtækinu. Burt séð frá þessu, þá eiga fyrirtæki almennt að hafa starfsfólk á launaskrá í stað þess að senda það á atvinnuleysisbætur við aðstæður sem þessar.

Þrátt fyrir það er afar gleðilegt að sjá fréttir af því  í fjölmiðlum að Samherji hafi ákveðið að fara að kröfum Framsýnar og bæta starfsmönnum upp tekjutapið í verkfalli sjómanna með því að bæta þeim upp tapaða daga í sumarfríi, þannig að þeir fái  fullan orlofsrétt og viðbót á orlofsuppbótina kr. 103.500.  Áður fengu starfsmenn auka greiðslu í desember í formi hærri desemberuppbótar. Með þessu er viðurkennt að starfsmenn fóru ekki vel út úr því að vera á atvinnuleysisbótum.

Já, það borgar sig svo sannarlega að berjast fyrir réttindum verkafólks. Þetta dæmi sýnir að það skilar árangri, enda séu fyrirtæki tilbúin að hlusta á réttmætar kröfur stéttarfélaga og starfsmanna. Reyndar sá Samherji ekki ástæðu til að hafa samband við  forsvarsmenn Framsýnar og skýra frá ákvörðun fyrirtækisins, hvað þá að gera „samkomulag“ við félagið. Það skiptir reyndar engu máli í þessu sambandi, aðalatriðið er að starfsmönnum hefur verið bætt upp tekjutapið að hluta að minnsta kosti í anda krafna frá Framsýn. Aðalsmerki Framsýnar er að standa vörð um hagsmuni félagsmanna á hverjum tíma.