Sumarferðin – fyrstir koma, fyrstir fá

Sumarferð stéttarfélaganna verður að þessu sinni helgarferð og nú við höldum austur á land, nánar tiltekið á Borgarfjörð eystri. Farið verður frá Húsavík snemma morguns þann 19. ágúst og komið til baka seinnipart sunnudagsins 20. ágúst. Við munum gista í uppbúnum rúmum hóteli og þar er morgunmatur innifalinn. Grillað verður í boði Framsýnar á laugardagskvöldið, en að öðru leiti nestar fólk sig sjálft.

Borgarfjörður eystri er nyrstur hinna eiginlegu Austfjarða. Þangað er tæplega 70 km. akstur frá Egilsstöðum, um Vatnsskarð og Njarðvíkurskriður. Borgarfjörður er rómaður fyrir náttúrufegurð og þá sérstaklega fyrir sérstæðan fjallahring. Sunnan fjarðar er ljóst líparít allsráðandi eins og í Staðarfjalli, en fyrir botni fjarðarins og norðan hans er blágrýti (basalt) mest áberandi og þá einkum í Dyrfjöllum. Inn af firðinum gengur um 10 km langur dalur, vel gróinn og nokkuð breiður. Eftir honum rennur Fjarðará. Þorpið Bakkagerði stendur við fjarðarbotninn.

Það er margt að skoða á þessum fallega stað og við munum njóta leiðsagnar staðkunnugra um svæðið. Fararstjóri verður Ósk Helgadóttir. Ferðakostnaður pr. mann í sumarferðina er aðeins 20.000-. Takmarkaður fjöldi verður í þessa ferð þannig að við biðjum áhugasama að skrá sig sem allra fyrst, eða fyrir 30. apríl. Höfum í huga, fyrstir koma, fyrstir fá.