Hnyklum vöðvana með Framsýn

Örn Jóhannsson flutti góða tölu á baráttufundi Framsýnar um málefni eldra fólks sem haldinn var á Fosshótel Húsavík á dögunum. Fjölmenni tók þátt í fundinum.  Hann kom víða við og taldi eldri borgara ekki búa við virðingu eða réttlæti í þessu þjóðfélagi. Hann sendi okkur þessa grein í kjölfarið sem við birtum hér:

Heimskreppan mikla 1930-1940, þá hrundu útflutningstekjur okkar  Íslendinga niður um 25%. En ungur þingmaður Héðinn Valdimarsson þá formaður Dagsbrúnar og þingmaður Alþýðuflokksins bar fram tillögu á Alþingi um byggingu félagslegra íbúða. Á árunum 1930-1935 voru byggðar 100 tveggja og þriggja herbergja íbúðir við Hringbraut í Reykjavík. Íbúðir með baði og rafmagnseldavélum og þótti þá íhaldinu nóg um lúxusinn  Það ríkti ekkert góðæri þá, það orð var ekki til og engin fjármálafyrirtæki með okurvexti. Í miðri kreppunni blésu sunnan vindar og fólk hafði trú á sjálfum sér og landinu sínu. Landinu var stjórnað af Framsóknarflokknum hinum gamla með stuðningi Alþýðuflokksins og við komumst í gegnum kreppuna með samvinnu þessara þá góðu flokka. Þetta sýnir okkur að við getum þetta en í dag ef við hendum þessu rotna bananalýðveldi fyrir björg og stöðvum lekann í ríkissjóði undir stjórn sjálfgræðgisstefnunnar kennda við Engeyinga. Það er mál að linni þessum leka vinavæðingar. Við þurfum líka að losa okkur við forseta ASÍ, hann beinlínis vinnur gegn verkalýðnum t.d. með svonefndu SALEK ósamkomulagi, maðurinn hlustar ekki á raddir láglaunastéttarinnar að ég tali nú ekki um raddir eftirlaunafólks og öryrkja. Það er náttúrlega með ólíkindum að verkalýðshreyfingin kjósi ekki menn til forystu úr eigin ranni, fólk sem hefur reynslu af  almennum störfum verkalýðs og raunveruleg kynni á kjörum þess. Menn eins og Benidikt Davíðsson, Guðmund Jaka, Björn Jónsson og Hannibal Valdimarsson. Á þeim tíma var reisn yfir okkar samtökum. Það var mikill gleðidagur hjá mér laugardaginn 4.mars s.l. þegar Framsýn okkar verkalýðsfélag hélt opinn glæsilegan fund undir slagorðinu Grái Herinn Hnyklar Vöðvana að Fosshótel Húsavík. Hjá mér sem öldruðum öryrkja kviknaði vonarneisti um að við værum búinn að eignast sterkan stuðningsmann og góðan og ég efast ekki um að Framsýn stéttarfélag Þingeyinga eigi eftir að reynast okkur vel í okkar baráttu fyrir bættum kjörum. Munum að SAMEINUÐ STÖNDUM VIÐ EN SUNDRUÐ FÖLLUM VIÐ.

Örn Byström Einarsstöðum Reykjadal