Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar hefur samþykkt að senda frá sér svohljóðandi áskorun til Samherja vegna ákvörðunar Reykfisks, sem er í eigu Samherja, að hætta starfsemi á Húsavík 1. maí 2017.
Áskorun
Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar samþykkti á fundi sínum að skora á stjórnendur Samherja að falla frá því að hætta rekstri Reykfisks ehf. á Húsavík frá og með 1. maí 2017.
Um er að ræða mikilvægan vinnustað á Húsavík sem veitt hefur um 20 starfsmönnum vinnu við almenn fiskvinnslustörf. Innan fyrirtækisins er mikill mannauður.
Í ljósi þess að kvótastaða Samherja er einstaklega góð ætti ekki að vera erfitt fyrir fyrirtækið að mæta tímabundum sveiflum í markaðs- og gengismálum með því að halda starfseminni áfram gangandi á Húsavík.
Verði niðurstaðan sú að fyrirtækið hætti endanlega starfsemi 1. maí verður það verulegur skellur fyrir starfsfólkið og samfélagið á Húsavík enda um verðmæt störf að ræða.
Húsavík 1. febrúar 2017
Fh. Framsýnar, stéttarfélags
Aðalsteinn Árni Baldursson