Reykfiskur hættir starfsemi – áföll í atvinnumálum fylgja 1. maí

Forsvarsmenn Reykfisks sem er í eigu Samherja tilkynntu  starfsmönnum fyrirtækisins og forsvarsmönnum Framsýnar, stéttarfélags í morgun að þeir ætluðu að leggja af starfsemina á Húsavík frá og með 1. maí nk. Þetta er annað áfallið í atvinnumálum sem ber upp á 1. maí. Eins og kunnugt er lokaði Vísir hf.  starfsemi fyrirtækisins á Húsavík þann 1. maí 2014. Við það misstu um 60 starfsmenn vinnuna í fiskvinnslu á Húsavík.

Hjá Reykfiski starfa um þessar mundir 20 starfsmenn í 18 stöðugildum. Þegar mest hefur verið hafa hátt í 30 starfsmenn starfað hjá fyrirtækinu sem hefur verið í eigu Samherja frá árinu 2009. Þar áður hafði fyrirtækið verið starfandi frá árinu 2005 undir nafninu Fjörfiskur. Reykfiskur hefur sérhæft sig í vinnslu á reyktum ýsuflökum á erlenda markaði. Framleiðslan á síðasta ári var um 700 tonn af reyktum flökum.

Á fundinum í morgun kom fram að reksturinn hefur gengið frekar illa tvö síðustu ár ekki síst vegna gengi krónunnar, markaðsmála og tollamála. Þess vegna væri ráðist í þessar aðgerðir. Á fundinum hvöttu forsvarsmenn Framsýnar fyrirtækið til að endurskoða ákvörðunina ekki síst í ljósi þess að vinnustaðurinn væri mikilvægur í samfélaginu og hefði á að skipa frábæru starfsfólki.

Fiskvinnsla er á undanhaldi á Húsavík, fækkað hefur um 100 störf í fiskvinnslu á allra síðustu árum með lokun Vísis hf. og nú Reykfisks hf. Að sögn formanns Framsýnar, Aðalsteins Árna Baldurssonar er þetta sláandi þróun, ekki síst fyrir stað eins og Húsavík. Stjórn Framsýnar hefur verið kölluð saman til fundar eftir helgina til að ræða þessi ömurlegu tíðindi.

aðaldís0309 125

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Félagarnir Jónas og Siggi Hákonar störfuðu um árabil hjá Reykfiski en hafa nú snúið sér að öðrum verkefnum. Þeirra gamla vinnustað verður lokað eftir nokkra mánuði.