Ályktun um fjárhagsvanda FSH og stöðu skólameistara

Eftirfarandi ályktun var samþykkt af stjórn Framsýnar, stéttarfélags miðvikudaginn 30. nóvember 2016.

Ályktun um fjárhagsvanda Framhaldsskólans á Húsavík og stöðu skólameistara

Framsýn, stéttarfélag tekur heilshugar undir áhyggjur Skólanefndar Framhaldsskólans á Húsavík sem lýsir yfir þungum áhyggjum af fjárhagslegri stöðu skólans og kallar eftir tafarlausum aðgerðum stjórnvalda til að tryggja rekstrargrundvöll skólans til framtíðar.

Þrátt fyrir að stjórnendur hafi sýnt mikla ábyrgð í rekstri skólans hefur það ekki dugað til þar skólanum hefur ekki verið gert kleift að standa undir daglegum rekstri sem rekja má til þess að framlög ríkisins hafa ekki verið í takt við skuldbindingar skólans ekki síst vegna launahækkana kennara. Að sjálfsögðu er það á ábyrgð stjórnvalda að tryggja skólanum rekstrarfé til starfseminnar á hverjum tíma og gildandi laga um framhaldsskólamenntun á Íslandi.

Þá krefst Framsýn þess að Menntamálaráðuneytið auglýsi nú þegar eftir skólameistara við Framhaldsskólann á Húsavík og eyði þannig þeirri óvissu sem myndast hefur um framtíð skólans sem gegnir greiðalega mikilvægu hlutverki í Þingeyjarsýslum. Núverandi skólameistari var ráðinn tímabundið fram að næstu áramótum.

Framsýn auglýsir jafnframt eftir skoðunum þingmanna kjördæmisins á þessari alvarlegu stöðu sem í aðdraganda kosninga töluðu fyrir mikilvægi menntunar í heimabyggð, þingmenn sem í dag eru hljóðir um stöðu mála.