Jakob áfram í vara sambandsstjórn SSÍ

Þing Sjómannasambands Íslands fór fram fyrir helgina. Þingið fór vel fram og voru kjaramál og önnur mál til umræðu auk þess sem kosið var í trúnaðarstöður fyrir sambandið. Jakob Gunnar Hjaltalín formaður Sjómannadeildar Framsýnar hlaut kjör í vara sambandsstjórn. Hér má lesa ályktanir þingsins.

Ályktanir 30. þings Sjómannasambands Íslands 24. og 25. nóvember 2016.

30. þing Sjómannasambands Íslands krefst þess að skattfríðindi íslenskra sjómanna verði lögfest að nýju þannig að þeir njóti sambærilegra skattfríðinda og sjómenn annarra fiskveiðiþjóða.

30. þing Sjómannasambands Íslands beinir því til Alþingis að sjá til þess að viðskipti með fisk milli útgerðar og fiskvinnslu verði gagnsæ og uppfylli skilyrði um heilbrigða samkeppni og góða viðskiptahætti. Einnig krefst þingið þess að fyrirtækjum í sjávarútvegi verði gert skylt að skila öllum upplýsingum um framleiddar afurðir og söluverð þeirra til Hagstofu Íslands. Með því móti er hægt að treysta því að mælingar á breytingum á afurðaverði séu réttar á hverjum tíma.

30. þing Sjómannasambands Íslands fagnar fyrirhugaðri könnun á hvíldar- og vinnutíma íslenskra sjómanna. Þingið telur að aðkoma sjómannasamtakanna að könnuninni sé algert lykilatriði og að hún verði unnin í nánu samstarfi við sjómennina sjálfa eins og fyrirhugað er. Að mati þingsins þarf að gera slíkar athuganir reglulega þannig að fyllsta öryggis sé ávallt gætt um borð í skipum. Í framhaldi af þeim athugunum verði settar reglur um lágmarks mönnum fiskiskipa við veiðar eftir stærð, gerð og veiðiaðferðum þeirra.

30. þing Sjómannasambands Íslands hvetur útgerðir til að gera átak í starfsmenntun sjómanna í samstarfi við Sjómennt og stéttarfélög sjómanna. Einnig hvetur þingið útgerðir til að styðja við menntun sjómanna með því að greiða gjald í starfsmenntunarsjóð eins og aðrir atvinnurekendur gera.

30. þing Sjómannasambands Íslands krefst þess að við endurskoðun laga um stjórn fiskveiða verði veiðiskylda aukin verulega.

30. þing Sjómannasambands Íslands krefst þess að vigtunarreglur verði endurskoðaðar. Afli verði full vigtaður á löggiltri hafnarvog þar sem ísprósenta er ákveðin og endurvigtunarleyfi verði afnumin.

30. þing Sjómannasambands Íslands hvetur áhafnir skipa og stjórnendur útgerða til að sjá til þess að björgunaræfingar séu haldnar reglulega um borð eins og lög og reglur mæla fyrir um. Þingið telur nauðsynlegt að öll áhöfnin staðfesti með undirskrift að æfing hafi verið haldin um borð. Þannig er komið í veg fyrir málamyndaæfingar. Einnig skorar þingið á yfirmenn fiskiskipa að sjá til þess að nýliðar fái lögbundna fræðslu um öryggibúnað og hættur um borð.

30. þing Sjómannasambands Íslands krefst þess að stjórnvöld tryggi Landhelgisgæslu Íslands nægt rekstrarfé á hverjum tíma. Sérstaklega á þetta við um rekstur þyrlusveitarinnar. Lífsspursmál er fyrir íslensku þjóðina að þyrlur séu til staðar þegar slys eða veikindi ber að höndum eins og dæmin sanna. Til að öryggi sé sem best tryggt þarf að mati þingsins að staðsetja þyrlur víðar um landið en nú er gert.
30. þing Sjómannasambands Íslands hvetur stjórnvöld til að auka verulega framlög til hafrannsókna. Fyrirsjáanlegar eru miklar breytingar á umhverfi hafsins á norðurslóðum á næstu árum og áratugum. Vegna mikilvægis sjávarútvegsins fyrir efnahag Íslendinga er að mati þingsins nauðsynlegt að efla haf- og fiskirannsóknir umhverfis landið til að hægt sé að meta áhrif umhverfisbreytinganna á fiskistofna við Ísland

30. þing Sjómannasambands Íslans hvetur til þess að fjarskiptamál sjófarenda verði skoðuð með það að markmiði að lækka kostnað sjómanna vegna fjarskipa þannig að hann verði sambærilegur við fjarskiptakostnað annarra landsmanna.

30. þing Sjómannasambands Íslands hvetur útgerðir og skipstjórnarmenn til að virða lögbundinn rétt sjómanna til hvíldar og fara eftir þeim lögum og reglum sem gilda um lagmarks hvíldartíma sjómanna.

30. þing Sjómannasambands Íslands hvetur Samgöngustofu til að fylgjast vel með öryggisbúnaði skipa og afnema allar undanþágur vegna ágalla í öryggisbúnaði. Einnig hvetur þingið til þess að allar reglur um öryggisbúnað verði samræmdar burtséð frá aldri skipa.

30. þing Sjómannasambands Íslands þakkar Slysavarnarskóla sjómanna fyrir frábært starf að slysavörnum og hvetur jafnframt til áframhaldandi árvekni í þessum málaflokki.
30. þing Sjómannasambands Íslands skorar á Íslenska útgerðarmenn að bæta samskipti sín við sjómenn. Vantraust hefur farið vaxandi milli sjómanna og útgerðarmanna undanfarin misseri. Í sumum tilfellum er um algeran trúnaðarbrest að ræða. Skapa þarf nýtt traust milli aðila þannig að sjómenn og útgerðarmenn þessa lands geti talað saman á mannlegum nótum með það að leiðarljósi að báðir komi með reisn frá þeim samkiptum.