17 milljónir vantaði upp á

Verktakafyrirtækið LNS Saga hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna frétta um vanefndir undirverktakans G&M gagnvart starfsmönnum sínum. Í yfirlýsingunni kemur fram að LNS Saga hafi í sumar gert ítarlega skoðun í samstarfi við Vinnumálastofnun og verkalýðsfélög, á því hvort kjarasamningar væru virtir af hálfu G&M við Þeistareykjavirkjun. Kom í ljós að um 17 milljónir króna vantaði upp á í greiðslur til starfsmanna. Heildarupphæð verksamningsins við G&M var yfir 300 milljónir króna á tímabilinu og því hafi skekkjan verið ríflega 5%. Helsta ástæðan hafi verið mistök í gegnisútreikningum af hálfu G&M.
Greiðslur í gegnum íslenska ráðningastofu:
Eftir að ljóst varð að G&M skorti fjármagn til að standa við gerða samninga við LNS Saga hefur LNS Saga náð samningum við G&M um að greiðslur fyrir októberlaunum verða greiddar beint til starfsmanna í gegnum íslenska ráðgjafaskrifstofu sem unnið hefur fyrir G&M. Starfsmenn hafa fengið tilboð um að halda áfram störfum. Þar segir einnig að fullyrðingar um að LNS Saga noti erlenda starfsmenn til að undirbjóða aðra verktaka í samkeppni um verkefni standist ekki skoðun.
Yfirlýsingin í heild sinni:
G&M hefur starfað á Íslandi í eitt og hálft ár sem undirverktaki LNS Saga. Fyrirtækið hafði á að skipa miklum fjölda af reyndu og duglegu fólki sem hefur reynst ágætlega í verkefnum hér á landi. Í öllum samningum LNS Saga við G&M eru skýr ákvæði um að fylgja beri íslenskum lögum og kjarasamningum.
Í sumar gerði LNS Saga, í samstarfi við Vinnumálastofnun og verkalýðsfélög, ítarlega skoðun á því hvort kjarasamningar væru virtir af hálfu G&M við Þeistareykjavirkjun. Tímaskráningar, viðvera starfsmanna og launaseðlar voru skoðuð og að lokum greiðslukvittanir frá bönkum. Niðurstaða skoðunarinnar var að um það bil 17 milljónir íslenskra króna vantaði upp á í greiðslur til starfsmanna. Heildarupphæð verksamningsins við G&M var á tímabilinu var yfir 300 milljónir. Skekkjan var því ríflega 5% Ein helsta ástæða þessa voru mistök í gengisútreikningum af hálfu G&M, en á þessu tímabili hafði krónan styrkst talsvert.
Nú í haust kom á daginn að G&M skorti fjárhagslegt bolmagn til að halda úti starfsmannahópnum á Íslandi og tók að draga launagreiðslur frá fyrirtækinu til starfsmanna sinna. LNS Saga flýtti greiðslum til fyrirtækisins til að liðka fyrir lausn málsins, en það dugði ekki til og að lokum varð ljóst að fyrirtækið skorti fjármagn til að standa við gerða samninga við LNS Saga.
Frá þeim tíma hefur LNS Saga unnið að því að viðhalda viðunandi verkhraða í þeim verkefnum sem G&M unnu fyrir fyrirtækið. Starfsmenn hafa fengið tilboð um að halda áfram störfum. LNS Saga hefur í dag náð samningum við G&M að greiðslur fyrir októberlaunum verða greiddar beint til starfsmanna í gegnum íslenska ráðgjafaskrifstofu sem unnið hefur fyrir G&M.
Í tengslum við þessi mál hafa komið fram fullyrðingar um að LNS Saga noti erlenda starfs-menn til að undirbjóða aðra verktaka í samkeppni um verkefni. Ef kostnaður við erlenda starfsmenn er skoðaður þá stenst þessi fullyrðing ekki skoðun. LNS Saga hefur verulegan uppihalds og ferðakostnað af starfsmönnum sínum og starfsmönnum erlendra undirverktaka.
LNS Saga er með fjölda undirverktaka bæði íslenska og erlenda. Ástæða þess að stundum eru valdir erlendir verktakar er skortur á hæfu innlendu starfsfólki.
Allt þetta mál hefur einnig verið tengt kröfum verkalýðshreyfingarinnar um keðjuábyrgð. Það er skoðun LNS Saga að lög um keðjuábyrgð hefðu verið mjög til bóta í þessu máli og greitt fyrir úrlausn þess.

Athugasemd:

Framsýn, stéttarfélag gerir eina alvarlega athugasemd við þessa fréttatilkynningu. Það er morgun ljóst að ástæðan fyrir þessum vangreiddu launum er ekki gengisútreikningum að kenna. Fyrirtækið G&M hefur gert í því að hlunfara starfsmenn þrátt fyrir að vita betur verandi með skriflegt samkomulag við Framsýn um kjör starfsmanna og vinnufyrirkomulag. Það er það rétta í málinu.