Framsýn skrifaði í dag sveitarfélögum á félagssvæðinu bréf þar sem þau eru hvött til að setja sér reglur um keðjuábyrgð verktaka sem þau eru í samskiptum við á hverjum tíma. Hér má lesa bréfið til sveitarfélaganna.
Til sveitarfélaga á félagssvæði
Framsýnar stéttarfélags
Húsavík 4. nóvember 2016
Varðar keðjuábyrgð verktaka
Þann 1. nóvember samþykkti bæjarstjórn Akureyrar samhljóða að í öllum samningum sem sveitarfélagið gerir um verklega framkvæmdir verði kveðið á um keðjuábyrgð verktaka. Keðjuábyrgðin gerir það að verkum að verkkaupi og aðalverktaki bera ábyrgð á því að tryggja kjarasamningsbundin kjör og önnur lögbundin réttindi.
Fyrr á þessu ári hafði Reykjavíkurborg samþykkt sambærilegar reglur. Þá hefur Landsvirkjun einnig sett sér reglur vegna keðjuábyrgðar.
Framsýn skorar á sveitarstjórnir á félagssvæðinu að samþykkja hliðstæðar reglur við fyrsta tækifæri. Keðjuábyrgð er eitt allra mikilvægasta verkfæri sem völ er á til að tryggja lögbundin réttindi og kjör. Á þeim miklu framkvæmda- og breytingatímum sem nú standa yfir í Þingeyjarsýslum hefur aldrei verið mikilvægara að sofna ekki á verðinum í þessum efnum.
Framsýn hefur einnig komið þeim skilaboðum á framfærði við alþingismenn að Alþingi hraði gerð laga um keðjuábyrgð fyrirtækja. Þess er vænst að Alþingi fjalli um málið í vetur en því miður er ekki hægt að teysta því.
Meðfylgjandi er bókun bæjarstjórnar Akureyrar.
Bókunin er svohljóðandi:
„Bæjarstjórn Akureyrar samþykkir að í öllum samningum verklegra framkvæmda, kaupa á þjónustu og vörum á vegum sveitarfélagsins verði sett inn ákvæði um keðjuábyrgð þeirra seljenda sem sveitarfélagið semur við. Með þessu vill Akureyrarbær tryggja að allir starfsmenn, hvort sem það eru starfsmenn verktaka, undirverktaka eða starfsmannaleiga, njóti launa, trygginga og annarra réttinda í samræmi við gildandi kjarasamninga og lög hverju sinni. Aðalverktakinn yrði í verksamningi, gerður ábyrgur fyrir að tryggja kjarasamnings- og lögbundin réttindi allra starfsmanna sem að verkinu koma. Þetta verður gert til að koma í veg fyrir undirboð og óeðlilega samkeppnishætti á vinnumarkaði.“