Kraftur í ungliðastarfi Framsýnar

4. þing ASÍ-UNG var haldið í Reykjavík fyrir um mánuði síðan. Þingið var vel sótt og voru tugir fulltrúa ungs launafólks saman komnir til þess að ræða stöðu ungs fólks innan verkalýðshreyfingarinnar og eins framtíð ungliðahreyfingar ASÍ. Ný stjórn var kjörin og línur lagðar fyrir komandi starfsár. Í kjölfar þingsins var gögnum safnað saman og frábær, áframhaldandi umræða hefur átt sér stað um stefnu og tilgang ungliðahreyfinga innan ASÍ.

Þingið tók þá ákvörðun að horfa inn á við og reyna að átta sig á hvernig best er að virkja ungt fólk innan hreyfingarinnar. Vandi hefur verið að fá ungt fólk til starfa innan stéttarfélaganna og ungt fólk innan ASÍ hefur upplifað sig með lítið bakland jafningja sinna. Þessu þarf að breyta enda upplifði ungt launafólk að það hefði verið skilið eftir og á það stigið í kjaraviðræðum síðasta árs. Án virkrar þáttöku ungs fólks missir hreyfingin nefnilega bæði vægi og vogarafl í baráttu launafólks. Rödd okkar vantaði við samningaborðið og niðurstaðan var eftir því.

ASÍ-UNG telur að heilt yfir þá þurfi að endurhugsa kynningu og fræðslustarfsemi verkalýðshreyfingarinnar. Það er áhyggjuefni hvað hreyfingin eldist hratt og að þrátt fyrir mikilvægi hennar þá virðist ungt fólk ekki tengja við hana. Aðferðir til þess að ná til ungs fólks hafa að mörgu leiti ekki fylgt eftir þróun í miðlun og aðferðafræði og nauðsynlegt fyrir aðildarfélög ASÍ að átta sig á alvarleika málsins. Stór hluti af vandanum er vanmat á þörf og vöntun á fjármagni til þess að sinna kynningar- og félagsstarfi ungs fólks innan hreyfingarinnar. Nauðsynlegt er að setja fjármagn í uppbyggingu ungliðastarfs innan ASÍ og aðildarfélaga til þess að tryggja nýliðun, gæði og framkvæmd viðburða, samráðsferðalög milli landshluta og samskipti við sambærileg samtök utan landsteina.

Framsýn er frumkvöðull innan hreyfingarinnar og hefur með því að halda úti virku ungliðaráði sýnt fram á raunverulegan vilja til lausna. Samskipti okkar við stjórn og formann hafa verið félaginu til sóma og það er mikil hvatning til okkar í ungliðaráðinu að finna fyrir þeim metnaði sem félagið sýnir í málefnum ungs fólks. Með þennan metnað í farteskinu er Framsýn-UNG staðráðið í að sjá til þess að félagið verði áfram leiðandi í þeirri hröðu þróun sem þarf að eiga sér stað innan verkalýðshreyfingarinnar til þess að tryggja henni líf og tilgang næstu árin og áratugina.

Aðalbjörn Jóhannsson,
formaður Framsýnar-UNG og alþjóðaritari stjórnar ASÍ-UNG