Sjómenn veita verkfallsheimild

Kosningu um ótímabundið verkfall hjá sjómönnum sem starfa eftir kjarasamningi Sjómannasambands Íslands og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi sem Framsýn á aðild að lauk kl. 12:00 á hádegi í dag, 17. október. 17 af 18 aðildarfélögum SSÍ samþykku að hefja verkfall á fiskiskipaflotanum kl. 23:00 þann 10. nóvember næstkomandi hafi samningar milli SSÍ og SFS ekki náðst fyrir þann tíma. Sjómannafélag Hafnarfjarðar var eina félagið sem hafnaði verkfalli. Hjá Framsýn tóku 75% sjómanna innan Sjómannadeildar félagsins sem höfðu kjörgengi þátt í atkvæðagreiðslunni. Þar af samþykktu 81% félagsmanna heimild til verkfallsboðunar og 19% greiddu atkvæði gegn verkfallsboðun. Niðurstaðan er skýr, megin þorri félagsmanna er klár í átök þurfi þess með til að knýja á um gerð kjarasamnings. Sjá má heildar niðurstöðurnar inn á www.ssi.is.

(Þorgeir Baldursson tók myndina sem er með þessari frétt)