Sumarferð Framsýnar

Það var föngulegur hópur sem mætti á skrifstofu stéttarfélaganna síðastliðinn laugardagsmorgun. Tilefnið var hin árlega sumarferð stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum. Rúnar Óskarsson var þar mættur á rútu Fjallasýnar sem ferja átti liðið eftir hentugleikum þennan dag. Hópurinn skemmtilega breiður, þar sem elsti þátttakandi var um sjötugt en sá yngsti átta mánaða.

Næturþokan grúfði sig enn yfir stór – Húsavíkursvæðið er rútan brunaði út bænum, en er komið var í Reykjadalinn var heldur farið að rofa til. Á Mývatnsheiðinni tók sólin svo brosandi á móti okkur og gaf fyrirheit um að dagurinn yrði líkast til nokkuð góður. Það var ekki bara sólin sem tók okkur fagnandi á heiðinni, það gerði mývargurinn líka. En því betur fór fljótlega að gola aðeins að utan, þannig að mýið varð ekki til mikilla vandræða.
Ferðinni var heitið niður Laxárdalinn og skyldi gengið af Nónskarðsásnum niður í Ljótsstaði, en það eru um 12 km. Á fyrrgreindum ás eru gatamótin upp í Stöng, þar var stoppað og smalað út úr rútunni, flugnanetum smeygt yfir höfuð, skór reimaðir fastar og arkað af stað niður dalinn undir öruggri leiðsögn Hallgríms Valdimarssonar, sem ættaður er frá Halldórsstöðum í Laxárdal.

Laxárdalur er sannkölluð náttúruperla. Úfin apalhraunin, runnin frá eldstöðum í Mývatnssveit, löngu vaxin lyngi og fjalldrapa og myndarlegar birkihríslur er smeygja sér undan hraundröngum spila undurfagrar sónötur með nið Laxár sem streymir niður eftir dalnum endilöngum. Sannkölluð sinfonía fyrir augu og eyru. Við hverfum aftur til fortíðar, hlaðnir hraungarðar og bæjarrústir í túni geyma sögu og spor genginna kynslóða og strax í upphafi ferðar kemur í ljós að nokkrir innan hópsins hafa tengsl af einhverju tagi við dalinn. Hafa alist þar upp, verið þar í sveit eða vinnumennsku, eða jafnvel að forfeður þeirra hafi búið í dalnum í lengri eða skemmri tíma. Það gefur auka krydd í ferðalagið, enda hafa menn frá ýmsu að segja.

Við höldum að Brettingsstöðum sem var syðsta jörðin í Laxárdal vestan megin ár, en búið var þar til ársins1954. Höfum viðkomu á trébrú skammt sunnan og neðan við bæinn. Hallgrímur segir okkur frá slysi því er varð til þess að áin var brúuð árið 1902, en ári fyrr hafði bóndinn á Brettingsstöðum drukknað þar ásamt vinnumanni sínum. Á Brettingsstöðum tökum við nestisstopp og eftir góða sögustund höldum við áleiðis að Ljótsstöðum. Leiðin milli bæja liggur í gegnum fallegan birkiskóg er nefnist Varastaðaskógur. Þar teygist ögn á hópnum þar sem menn kjósa misjafnan ferðahraða, en allir skila sér þó í hlað á Ljótsstöðum á góðum tíma. Blíðviðrið og fagurbláar berjaþúfur tefja nokkuð fyrir göngufólki og víst er að töluvert magn berja hafur ratað í maga manna þennan dag.

Á Ljótsstöðum stendur tíminn í stað, þar er flest eins og það var þegar síðasti ábúandi féll frá árið 1965. Bærinn stendur opinn fyrir vegfarendum, öllum frjálst að skoða sig þar um gegn því að hrófla þar ekki við neinu. Eftir að hafa litast um á Ljótsstöðum og pústað um stund í hlaðvarpanum tóku aftur við þægindin í rútunni hjá Rúnari sem flutti hópinn að Þverá. Þar tók Áskell bóndi á móti okkur og sýndi hæverskur nýuppgerða kirkjuna og gamla torfbæinn þar sem hann er sjálfur fæddur og uppalinn. Á Þverá er snyrtimennskan höfð í fyrirrúmi, þar hefur öllu verið haldið til haga og leynir sér ekki sú natni og eljusemi sem ábúendur þar á bæ hafa lagt í að viðhalda sögunni. Gamli torfbærinn sem hefur verið í vörslu þjóðminjasafnsins frá árinu 1968 þykir ekki síst merkilegur fyrir það að hann er talinn geyma heildstæðustu búsetuminjar sem til eru á landinu.

Eftir að hafa kvatt Þverárbónda brunum við í Halldórsstaði þar sem Hallgrímur leiðsögumaður okkar og Halldór bróðir hans ráða ríkjum. Enn dveljum við í fortíðinni, skoðum Halldórsstaðahúsið þar sem fjölskyldur þeirra bræðra hafa komið sér upp skemmtilegri dvalaraðstöðu. Hér hefur dagatalinu heldur ekki verið flett í hálfa öld og gamlir munir prýða húsið sem hefur fengið að halda sjarmanum og manni finnst að maður sé staddur á lifandi safni þar inni. Þeir bræður léðu okkur fúslega mataraðstöðu í skemmtilega uppgerðri hlöðu og það stóð á endum, er við renndum í hlað var grillmeistarinn Lilja Sigurðar rétt að ljúka við að grilla dýrindis lambakjöt ásamt tveimur aðstoðarmönnum, þeim Aðalsteini og Aðalsteini. Eftir góðan mat og drykk seig á menn nokkur höfgi, en nú var orðið mál að halda heimleiðis og voru Halldórsstaðabræður kvaddir með þakklæti fyrir frábærar móttökur.

Við snúum aftur til nútímans og sólin er enn á himni er Rúnar skilar hópnum aftur heim til Húsavíkur. Menn kveðjast og týnast hver til síns heima, vonandi alir sáttir eftir viðburðarríkan dag.

a1916 259 a1916 241 a1916 239 a1916 220 a1916 172 a1916 144 a1916 140 a1916 112 a1916 023