Starf Framsýnar hefur lengi vakið mikla athygli á landsvísu enda eitt öflugasta stéttarfélag landsins. Síðustu daga hefur félagið verið töluvert í umræðunni þar sem það tekur fast á kjarasamningsbrotum, ekki síst erlendra undirverktaka sem eru við störf á félagssvæðinu við mannvirkjagerð. Baráttukveðjur berast ekki síst með netpósti og þá eru dæmi um að einstaklingar hafi komið sínum kveðjum á framfæri með blómum. Á myndinni má sjá nafnanna, Aðalstein Árna og Aðalstein Jóhannes með blómvönd sem barst félaginu eftir hádegi í dag eftir umfjöllun fjölmiðla um vinnustaðaeftirlit félagsins. Full ástæða er til að þakka fyrir baráttukveðjur og hvatningu fólks til félagsins hvað þessi mál varðar. Að gefnu tilefni er rétt að árétta að Framsýn á mjög gott samstarf við verkkaupa og stærstu íslensku verktakana sem hafa yfirumsjón með flestum verkum á svæðinu. Því miður hafa nokkrir erlendir undirverktakar verið staðnir að því að virða ekki íslenska kjarasamninga sem að sjálfsögðu verður ekki liðið.