Samkomulag ASÍ og SA um hækkun á framlagi atvinnurekenda í lífeyrissjóði:

Mótframlag atvinnurekenda í lífeyrissjóði starfsmanna hækkar um 3,5% í þremur áföngum til 2018, það er þeirra starfsmanna sem starfa eftir kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands:

• 1. júlí 2016 hækkar mótframlag atvinnurekenda um 0,5% stig
• 1. júlí 2017 hækkar mótframlag atvinnurekenda um 1,5% stig
• 1. júlí 2018 hækkar mótframlag atvinnurekenda um 1,5% stig
• Hækkun um 0,5% þann 1. júlí nk. mun renna í samtryggingu sjóðsfélaga
• Frá 1. júlí 2017 getur fólk ráðstafað allt að 2% stigum í bundinn séreignarsparnað
• Frá 1. júlí 2018 getur fólk ráðstafað allt að 3,5% stigum í bundinn séreignarsparnað

Samkvæmt kjarasamningi aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins sem undirritaður var 21. janúar 2016 hækkar mótframlag atvinnurekenda í lífeyrissjóð um samtals 3,5% stig á samningstímanum. Hækkunin kemur til framkvæmda í þremur áföngum, 0,5% stig þann 1. júlí 2016, 1,5% stig þann 1. júlí 2017 og um 1,5% stig þann 1. júlí 2018 og nær til þeirra lífeyrissjóða sem starfa á grundvelli kjarasamnings þessara aðila um lífeyrismál frá árinu 1969 og 1995. Skylduiðgjald til lífeyrissjóðs samkvæmt samningi þessum verður þá samtals 15,5% frá 1. júlí 2018, sem skiptist í 4% iðgjald launamanns og 11,5% mótframlag atvinnurekanda.
Samkvæmt samningi aðila frá 21. janúar 2016 verður einstaklingum heimilt að ráðstafa, að hluta eða fullu, auknu framlagi launagreiðanda í bundinn séreignasparnað í stað samtryggingar til að auðvelda launafólki starfslok og auka sveigjanleika.
Atvinnurekendum verður áfram skylt að skila öllu skyldutryggingariðgjaldinu til lífeyrissjóðs viðkomandi launamanns. Sjóðfélagar munu því snúa sér beint til viðkomandi lífeyrissjóðs ef þeir óska eftir því að nýta sér þennan rétt, en lífeyrissjóðir sem starfa á grundvelli kjarasamninga ASÍ og SA munu setja upp sérstakar deildir um þessa bundnu séreign.
Ljóst er að núverandi löggjöf um starfsemi lífeyrissjóða hefur ekki að geyma ákvæði sem heimilar sjóðsfélögum eða lífeyrissjóðum að ráðstafa hluta af skylduiðgjaldi í bundna séreign. Einnig er ljóst að tíminn fram til 1. júlí 2016 er ekki nægur til að lífeyrissjóðirnir geti sett upp gagnsætt og skilvirkt kerfi svo sjóðsfélagar geti tekið upplýsta ákvörðun um að ráðstafa hluta skyldutryggingariðgjalds í bundna séreign og áhrif þeirrar ákvörðunar á samsetningu réttinda sinna.
Því er óhjákvæmilegt annað en að fresta gildistöku heimildar til ráðstöfunar í bundna séreign til 1. júlí 2017 en þá verði launamanni heimilt að ráðstafa allt að 2% stigum í bundna séreign. Frá og með 1. júlí 2018 verði launamanni heimilt að ráðstafa til viðbótar allt að 1,5% stigum til bundinnar séreignar eða samtals allt að 3,5% stigum.
Hækkun framlags atvinnurekenda til lífeyrissjóðs um 0,5% frá og með 1. júlí 2016 verður fyrst um sinn ráðstafað í samtryggingu viðkomandi lífeyrissjóðs þar til valrétturinn tekur gildi frá og með 1. júlí 2017.

Samkomulag ASÍ og SA um framkvæmd á hækkun framlags atvinnurekenda í lífeyrissjóði á grundvelli samnings aðila frá 21. janúar 2016 – dags. 15.6.2016