Laun í vinnuskólum

Framsýn kannaði á dögunum hvort sveitarfélögin á starfssvæðinu byðu upp á vinnuskóla í sumar og ef svo, hvaða laun væru í boði.

Í ljós kom að Skútustaðahreppur mun bjóða upp á vinnuskóla fyrir börn fædd 2002. Þau munu fá greiddar 491 krónur á klukkustund. Þingeyjarsveit býður upp á vinnuskóla fyrir börn fædd 2001 og 2002. Börn fædd 2001 munu fá 747 krónur greiddar á klukkustund og börn fædd 2002 munu fá 637 krónur á klukkustund. Norðurþing mun bjóða upp á vinnuskóla fyrir börn fædd 2001 og 2002. Börn fædd 2001 munu fá 610 krónur á klukkustund og börn fædd 2002 fá 491 krónu á klukkustund.

Í grein Fréttablaðsins frá 20. maí kemur fram að mjög mismunandi er hversu mikið börn fá greitt fyrir vinnu í vinnuskólum. Snæfellsbær trónir á toppnum í launagreiðslum en þar fá börn fædd 2002 1.078 krónur á klukkustund og börn fædd 2001 1.243 krónur á klukkustund. Stykkishólmur og Grundarfjörður koma í sætunum þar fljótlega á eftir. Lægstu launin fyrir börn fædd 2002 greiðir Hafnarfjörður en þar fá börn á þessum aldri 416 krónur á klukkustund. Lægstu launin fyrir börn fædd 2001 greiðir Reykjavík en þar fá börn í þessum árgangi 464 krónur á klukkustund.