Lögreglan á Norðurlandi eystra með aðstoð Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Lögregluskóla ríkisins og formanns Framsýnar, stéttarfélags fóru á vinnusvæðið við Bakka sl. föstudag. Tilefnið var fyrirvaralaus heimsókn á vinnusvæðið til að kanna með ýmis mál er varða erlent vinnuafl, réttindamál, aðbúnað og hollustuhætti sem og launakjör verkafólks. Frá þessu segir á Fésbókarsíðu lögreglunnar á Norðurlandi eystra.
„Lögreglumenn höfðu þá daginn áður setið námskeið í málefnum útlendinga með áherslu m.a. á slíkar vinnustaðaheimsóknir. Námskeiðið var haldið á Akureyri en opið með fjarfundarbúnaði á útstöðvar embættisins.
Nokkuð hefur verið um á landsvísu að fyrirtæki hafi ekki verið með allt sitt á hreinu hvað varðar aðbúnað, launakjör og ýmis réttindamál innflutts vinnuafls og hefur slík umræða verið nokkuð fyrirferðarmikil í fjölmiðlum. Ákveðið var í þetta skiptið að hafa eftirlit með framkvæmdum á svæðinu við Bakka norðan Húsavíkur.
Skemmst er frá því að segja að við fengum góðar móttökur öryggisfulltrúa SMS, EFLU og LNS SAGA og starfsfólks á svæðinu og fundum við ánægju með heimsókn lögreglunnar og fáar athugasemdir gerðar af okkar hálfu og virtist aðbúnaður starfsfólks og öryggismál með ágætum. Kannað var með réttindi ökumanna á vinnuvélum, aðbúnað starfsfólks og hvort vinnuafl væri skráð í landið,með íslenska kennitölu og slíkt. Leitað var eftir framvísun vinnustaðaskírteina ofl.
Starfsmenn eiga að bera á sér auðkenni í formi vinnustaðaskírteinis og er slíkt er krafa og sektir við vöntun á skírteinum. Lögreglumönnum var fylgt um svæðið í af öryggisfulltrúa frá EFLU, verkfræðistofu og einnig frá öryggisfulltrúa LNS SAGA. Lögreglan á Norðurlandi eystra þakkar móttökurnar, aðstoð LRH og LSR sem og Framsýnar og væntir góðs samstarfs við hlutaðeigandi fyrirtæki á svæðinu um frekara eftirlit með þessum málum.
Lögreglan hyggst halda áfram eftirliti með fyrirtækjum á svæðinu sem halda erlent vinnuafl og geta þau átt von á heimsókn lögreglu þar sem kannað verður með aðbúnað og réttindamál“. Segir í fréttinni á Fésbókarsíðunni.