Það hefur sjálfsagt ekki farið framhjá neinum á svæðinu að mikil breyting hefur orðið á matvöruverslununum á Húsavík á undanförnum vikum. Óhætt er að segja að verslunarstig bæjarins hafi hækkað við þessa breytingu enda vöruúrval orðið meira og aðgengi að verslunum orðið betra en áður. Starfsfólk Skrifstofu stéttarfélaganna hefur orðið vart við einstaklinga að versla á Húsavík sem óvanalegt er að sjá hér að versla. Þetta er tímabær breyting sem almenn ánægja er með hér í samfélaginu.
Það er þó ekki svo að ekki sé svigrúm fyrir bætingu. Mikil þreyta er í íbúum Mývatnssveitar með Samkaup Strax verslunina í Reykjahlíð. Búðin var opnuð ný sumarið 2002 og var það mikil breyting til batnaðar frá því sem áður var. Núna þykir hún hinsvegar orðin of lítil eftir þá ótrúlegu fjölgun ferðamanna sem hefur orðið síðan 2002. Auk þess er í umræðunni að verðið í versluninni sé of hátt og í engum takti við það sem þekkist á Húsavík þar sem Samkaup rekur verslanir.
Framsýn stéttarfélag hefur óskað eftir fundi með fulltrúum Samkaupa til að ræða málefni verslunarinnar í Reykjahlíð.