„Hvernig Ísland viljum við búa okkur sjálfum, foreldrum og börnum okkar?“

Halldór Grönvold aðstoðarframkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands var með magnaða ræðu á hátíðarhöldunum á Húsavík í gær. Hér má lesa hana:

Góðir félagar. Gleðilega hátíð
Ég vil byrja á að óska ykkur til hamingju með þessa glæsilegu 1. maí hátíð stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum.
Á 1. maí lítum við yfir farinn veg og metum hvernig til hefur tekist. Við drögum lærdóm af reynslu liðinna ára og áratuga um leið og við setjum okkur ný verkefni og markmið til framtíðar.
Yfirskrift 1. maí í ár „Samstaða í 100 ár – sókn til nýrra sigra“ vísar til sögu verkalýðshreyfingarinnar og ávinninga baráttunnar, mikilvægis þess að verja það sem áunnist hefur og sækja fram til nýrra sigra. Við höfum enn mikið verk að vinna.
Í dag minnumst við þess að starf verkalýðshreyfingarinnar hefur skilað miklum árangri. Það er fátt líkt með þeim kjörum og réttindum sem launafólk býr við hér á landi í dag og bara fyrir nokkrum áratugum. Hvað þá ef við horfum heila öld aftur í tímann.
Kjarasamningar og löggjöf sem tryggja launafólki föst laun, hvíldartíma og frídaga, veikinda- og slysarétt, uppsagnarrétt, orlof, fæðingar- og foreldraorlof, reglur um mannsæmandi aðbúnað á vinnustað eru allt nútímafyrirbæri. Öll þessi réttindi, og fjölmörg önnur, eru ávöxtur samstöðu og baráttu. Sama gildir um almannatryggingar, atvinnuleysistryggingar og réttinn til heilbrigðisþjónustu og menntunar. Okkur er hollt að minnast þess að sú velferð og öryggi sem launafólk hér á landi býr almennt við í dag er árangur af baráttu verkalýðshreyfingarinnar. Ekkert af þessu féll af himnum ofan.

Ágætu félagar.
Síðustu ár hafa um margt verið íslensku launafólki gjöful. Eftir áfallið og erfiðleikana í kjölfar Hrunsins er að birta yfir íslensku efnahagslífi, þótt enn séu margir félagar okkar að glíma við afleiðingarnar. Kaupmáttur launa hefur aukist og atvinnuleysi fer hratt minnkandi.
Það er sannarlega mikil uppsveifla í atvinnulífinu. Störfum fjölgað svo þúsundum skiptir og því er spáð að þessi þróun haldi áfram næstu ár. Verklegar framkvæmdir eru á fullu og ferðaþjónustan vex sem aldrei fyrr. Þetta blasir hvarvetna við, ekki síst hér í Þingeyjarsýslum, og er það vel. Við fögnum vextinum í atvinnulífinu og þeim verðmætum sem hann á að skila launafólki og samfélaginu öllu. Til að vinna störfin treystum við á framlag erlends launafólks svo þúsundum skiptir.
En vöxturinn hefur sínar skuggahliðar. Það er sótt að sjálfum grundvelli þess vinnumarkaðar sem hér hefur verið byggður upp með baráttu verkalýðshreyfingarinnar – kjörum og réttindum launafólks. Við glímum við ört vaxandi vanda vegna fyrirtæka, erlendra og íslenskra, sem stunda undirboð á vinnumarkaði og ólöglega atvinnustarfsemi. Vandinn er stærstu þar sem vöxturinn er mestur, í byggingariðnaði og mannvirkjagerð og ferðaþjónustunni. Og brotastarfsemin beinist að þeim sem „eru veikastir fyrir“. Þekkja minnst þau kjör og réttindi sem hér gilda og hafa síst þrek og áræði til að sækja sinn rétt. Við erum að tala um:
Útlendingana sem hingað koma til starfa og eru sóttir til fátækustu ríka Evrópu og 3ja heimsins þar sem kjör og öll réttindi eru allt önnur og lakari en hér þekkist. Og, unga fólkið sem er að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði.
Við sjáum jafnframt að aðferðirnar sem er beitt eru „þróaðri“ og brotastarfsemin ósvífnari en áður.
Verst eru brotin gagnvart erlenda verkafólkinu sem borgað eru laun langt undir því sem kjarasamningar segja til um. Þar sem starfsreynsla og starfsréttindi eru einskis virt. Yfirvinnu- eða vaktavinnulaun ekki greidd. Þar sem öryggi og aðbúnaður á vinnustað er með öllu óásættanlegt. Og þeim er gert að gista á verkstæðisloftum og iðnaðarhúsnæði. Eða í hálfgerðum gettóum þar sem þeim er troðið, mörgum saman, í litlar herbergiskytrur og látnir borga fyrir okurleigu.
Og atvinnurekendurnir gera allt til að koma í veg fyrir að þetta erlenda verkafólk fái upplýsingar um rétt sinn og halda því markvisst frá stéttarfélögunum. Reyni það engu að síður að sækja sinn rétt er því hótað atvinnumissi og að það verði sent úr landi. Í atvinnuleysið og örbyrðina heima fyrir. Þannig er spilað á varnarleysi, hræðslu og ótta. Verstu tilfellin eru mansal, þar sem erlenda launafólkið er hneppt í hreinan þrældóm og haldið föngnu, eins og nýleg dæm sanna.
Við fáum nú innsýn í skuggahliðar hnattvæðingar, skipulagðrar brotastarfsemi og óbilgirni erlendra og íslenskra fyrirtækja, sem ekki víla fyrir sér að misnota og brjóta á erlendu verkafólk til að skapa sér samkeppnisforskot á markaði og auka gróða sinn.
Nýjasta dæmið er síðan svokölluð „sjálfboðaliðastarfsemi“ og „starfsþjálfun“. Þar sem ungt fólk erlendis frá er látið vinna launalaust við framleiðslu- og þjónustustörf einkum í ferðaþjónustu, í samkeppni við fyrirtæki sem virða kjarasamninga og lög og greiða sínu starfsfólki laun.
Það er sammerkt með allri þessari brotastarfsemi að reynt er með öllum tiltækum ráðum að komast undan því að greiða skatta og skyldur til samfélagsins.
Á þessari brotastarfsemi tapa allir nema svindlararnir.
Í fyrsta lagi tapar útlenda launafólkið og ungmennin sem brotið er á.
Í öðru lagi tapar allt íslenskt launafólk, því með undirboðum á vinnumarkaði er grafið undan kjörum og réttindum sem hér gilda. Árangri af áratuga starfi og baráttu verkalýðshreyfingarinnar og íslensks launafólks er stefnt í hættu.
Í þriðja lagi tapa öll heiðarleg fyrirtæki sem jafnframt eru kjölfestan í íslensku atvinnulífi og koma fram af virðingu við sitt starfsfólk og greiða sín gjöld til samfélagsins. Með undirboðum á vinnumarkaði og svartri atvinnustarfsemi er grafið undan samkeppnisstöðu þeirra.
Í fjórða lagi tapar samfélagið allt. Fyrirtæki sem stunda félagsleg undirboð og svarta atvinnustarfsemi eru jafnframt að koma sér undan því að greiða skatta og leggja sitt til samfélagsins. Þau grafa undan heilbrigðis-, velferðar-, menntakerfinu, því velferðarsamfélagi sem við viljum hafa.
Ágætu félagar.
Þessa brotastarfsemi verður að uppræta með öllum ráðum. Hún má ekki ná fótfestu á íslenskum vinnumarkaði. Þess vegna hefur verkalýðshreyfingin sameinast um verkefnið ”Einn réttur – ekkert svindl!”
Einn réttur vísar til þess að allir á íslenskum vinnumarkaði, útlendingar jafnt og íslendingar, eigi að njóta sömu kjara og sama réttar samkvæmt kjarasamningum og lögum.
Ekkert svindl vísar til þess að ekkert fyrirtæki á að komast upp með að svindla á erlendu launafólki og ungmennum.
Það er ánægjulegt að geta sagt frá því að við höfum að undanförnu náð mikilvægum árangri í baráttunni gegn svindlurunum og brotafyrirtækjunum. Stéttarfélögunum hefur með starfi sínu tekist að fá kjör og réttindi þúsunda erlendra launamanna leiðrétt og starfsemi svikafyrirtækja hefur verið lömuð eða upprætt. Frumkvæði Framsýnar og stéttarfélaganna hér í Þingeyjarsýslum, markvisst starf, eftirfylgni og þrautseigja, fyrst á Þeystareykjum og nú í tengslum við framkvæmdirnar hér við Húsavík er til fyrirmyndar. Það á að vera öðrum til eftirbreytni.
Að frumkvæði verkalýðshreyfingarinnar er nú unnið að því að bæta löggjöf og samninga sem beinast gegn brotastarfseminni. Krafan er löggjöf sem gerir verkkaupa og aðalverktaka ábyrga fyrir undirverktökum sínum, hvort heldur vegna launa og annarra starfskjara starfsmanna þeirra eða skila til sameiginlegra sjóða okkar. Löggjöf og framkvæmd sem tryggir að hægt sé að stöðva brotastarfsemina. Þar á engan afslátt að gefa.

Ágætu félagar.
Í dag horfum við til framtíðar – til nýrra sigra.
Hvernig Ísland viljum við búa okkur sjálfum, foreldrum og börnum okkar?
Við stöndum frammi fyrir miklum áskorunum sem samfélag næstu árin:
Það þarf að tryggja öldruðum mannsæmandi þjónustu og aðbúnað. Markmiðið er að eldra fólk sem lokið hefur starfsævinni eigi öruggt ævikvöldinu.
Það þarf að tryggja góða heilbrigðisþjónustu sem allir geta notið án tillits til efnahags eða búsetu.
Það þarf að tryggja öllum gott og öruggt húsnæði á sanngjörnu verði. Ekki síst ungum fjölskyldum sem eru að hefja búskap.
Í öllum þessum málum hefur verkalýðshreyfingin tekið frumkvæði og krefst aðgerða.
Og verkefnin eru fleiri.
Launafólk á Íslandi í dag, einkum unga fólkið, gerir kröfur til þess að við endurmetum hugmyndir okkar um lífsgæði. Áfram er baráttan fyrir lífvænlegum launum og efnalegri velferð grundvallaratriði. En margt fleira þarf að koma til.
Launajafnrétti kynjanna er brýnt úrlausnarefni. Við eigum ekki og megum ekki láta það líðast lengur að konum sé kerfisbundið mismunað í launum.
Við gerum kröfur til þess að hér verði rekin atvinnu- og byggðastefna sem tryggi launafólki, hvar sem er á landinu, möguleika til starfa og mennta og almennra lífsgæða.
Góð menntun, ekki síst verk- og tæknimenntun, er helsta forsenda bættra lífskjara og samkeppnishæfni þjóðarinnar til lengri tíma litið.
Það er baráttumál okkar að stytta vinnutíma hér á landi þannig að hann verði sambærilegur við það sem gerist í löndunum í kringum okkur.
Óhóflegur vinnutími er heilsuspillandi.
Óhóflegur vinnutími skilar engum verðmætum. Hann er sóun.
Óhóflegur vinnutími sviptir launafólki og börnum þess mikilvægum rétti til samvista og skapar fjölmörg félagsleg vandamál.
Það er svo sannarlega verk að vinna.

Fyrsti maí er alþjóðlegur baráttudagur og alls staðar í heiminum er verkafólk að vekja athygli á kjörum sínum og baráttumálum.
Með hnattvæðingunni hafa völd og áhrif fjölþjóðlegra stórfyrirtækja og fjármagnseigenda aukist til muna. Samhliða hafa tök þessarar aðila á fátækum þjóðum heimsins verið hert.
Þess vegna skiptir alþjóðastarf verkalýðshreyfingarinnar stöðugt meira máli. Alþjóðleg verkalýðshreyfing berst fyrir lýðræði og krefst sömu grundvallarréttinda fyrir launafólk alls staðar í heiminum. Alþjóðleg verkalýðshreyfing berst fyrir mannsæmandi lífi fyrir alla. Það gildir líka um þær milljónir, ekki síst barna, sem flúið hefur stríðsátök og ofbeldi og er nú á vergangi víða um heim. Það er siðferðileg skylda okkar að leggja þessari baráttu lið.

Ágætu félagar. Að lokum þetta.
Við höfum svo sannarlega verk að vinna. Verjum þann mikilvæga árangur sem náðst hefur um leið og við sækjum fram til nýrra sigra. Við skulum áfram vinna að því að byggja upp réttlátt samfélag gegn misrétti og fátækt, þar sem komið er fram við alla af sanngirni og virðingu. Þar sem launafólk, jafnt erlent sem íslenskt, nýtur ávaxtanna af erfiði sínu. Þar sem allir búa við fjárhagslegt öryggi og lifa með reisn. Í þeirri baráttu er mikilvægt að við stöndum saman sem órofa heild.
Til hamingju með baráttudag launafólks.