Mikið fjölmenni er saman komið á hátíðarhöldum stéttarfélaganna í Íþróttahöllinni á Húsavík enda boðið upp á veglega dagskrá. Dagskráin hófst með ávarpi formanns Framsýnar, Aðalsteins Árna Baldursonar kl. 14:00 sem er hér meðfylgjandi. Hátíðarræðu dagsins flytur svo Halldór Grönvold aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ. Hægt verður að nálgast hana á heimasíðunni á morgun. Síðar í dag verður svo fjallað betur um samkomuna í dag.
Ágæta samkoma!
Árið er 1969. Þegar við yngstu bræðurnir litum út um gluggann í kvöldskugganum á aðventunni, þá börn að aldri á Torginu, mátti sjá undarlegar kynjaverur bjástra á húsþökum við skorsteina sem líktust jólasveinum.
Á þeim tíma voru skorsteinar á flestum húsum enda kynnt með olíu.
Móðir okkar notaði tækifærið, hún sagði jólasveina vera á þökunum komna til að gefa okkur í skóinn ef við yrðum þægir. Við hlýddum, drógum fyrir gluggana og lögðumst til hvílu.
Furðuverurnar sem við töldum vera jólasveina, voru þess í stað krókloppnir heimilisfeður að koma fyrir sjónvarpsloftnetum á húsþökum við erfiðar vetraraðstæður til að geta tekið á móti fyrstu sjónvarpsútsendingunum á Húsavík í byrjun desember ´69.
Það var mikil spenna í loftinu, Húsavíkurfjall var miðpunktur alls, enda nýbúið að setja upp sendi á fjallið sem ætlað var að varpa útsendingunum inn á heimilin í bænum.
Aldrei fyrr höfðu menn reigt höfuðið eins oft í áttina að fjallinu eins og dagana fyrir fyrstu útsendinguna, það mátti heldur ekkert klikka, miðið á greiðunni yrði að vera rétt. Sjónvarpstækin seldust upp líkt og fótanuddtækin forðum daga hjá Karli Hálfdánarsyni.
Þar sem sjónvarpstækin seldust upp söfnuðust menn saman hjá nágrönnunum sem höfðu verið svo lánsamir að komast yfir sjónvörp áður en þau seldust upp í Kaupfélaginu.
Mér, þá níu ára gutta, var komið fyrir hjá heiðurshjónunum Guggu og Togga Sigurjóns á Sólvöllunum þar sem foreldrar mínir höfðu ekki komist yfir sjónvarp í tæka tíð, en það var sagt á leiðinni frá Reykjavík.
Spenningurinn var gríðarlegur, myndi sjónvarpsútsendingin klikka og hvað með stillimyndina, yrði hún skýr eða hreyfð. Það mátti heyra saumnál detta í stofunni á Sólvöllunum, menn héldu niðri í sér andanum, stundin nálgaðist.
Áhyggjurnar reyndust óþarfar, allt gekk eins og í sögu. Stillimyndin reyndist skýr og átti eftir að verða vinsælasta sjónvarpsefnið hjá okkur krökkunum fyrstu árin enda lítið sem ekkert barnaefni í boði á þessum tíma, þá voru ekki barnaþættir eins og Dóra landkönnuður, Hvolpasveitin og Úmí Zúmí á dagskrá.
Svarthvíta stillimyndin hafði vissulega ákveðin sjarma fyrir lítil hjörtu, sem settust fyrir framan sjónvarpið korter í átta og horfðu spennt á stillimyndina fram að fréttum. Þetta fyrsta sjónvarpskvöld var einnig heimildarmynd um Hallormsstaðaskóg sem ég man enn vel eftir.
Þvílík var upplifunin fyrir níu ára dreng.
Á okkar stuttu ævi höfum við gengið í gegnum miklar samfélagslegar breytingar sem við höfum þurft að takast á við á hverjum tíma. Ein af þeim var þegar sjónvarpið kom til Húsavíkur sem var mikil bylting í afþreyingu.
Því miður hafa breytingarnar eða þróun mála ekki alltaf verið okkur í hag.
Þingeyingum það er íbúum Norðurþings, Tjörneshrepps, Þingeyjarsveitar og Skútustaðahrepps hefur fækkað jafnt og þétt eða um 18% frá árinu 1998.
Samhliða hefur þjónustustigið fallið og störfum fækkað fyrir utan störf í ferðaþjónustu.
Áföll hafa orðið í atvinnumálum líkt og þegar útgerðarfyrirtækið Vísir hætti starfsemi, rekstri Kísiliðjunnar var hætt og þegar Kaupfélag Þingeyinga fór í þrot hér á árum áður og hætti starfsemi.
Fram að þeim tíma hafði Kaupfélagið verið einskonar hjarta í atvinnulífi Þingeyinga og veitt fjölda fólks atvinnu auk þess sem það stóð dyggilega við bakið á menningar, æskulýðs- og íþróttastarfi í héraðinu.
Þá hefur margt ungt fólk ekki skilað sér aftur heim að loknu framhaldsnámi.
Þessi staðreynd liggur fyrir enda hefur samfélagið í landnámi Garðars við Skjálfanda verið að eldast ár frá ári.
En það birtir við sólarupprás.
Tímar stöðnunar og fólksfækkunar eru að baki. Framundan eru uppgangstímar á „Stór Húsavíkursvæðinu“.
Við Þingeyingar sitjum á auðlind til góðra verka, ekki síst mannauði, menningu, orku og náttúrufegurð. Það er okkar að hlúa að þessum þáttum svo þeir beri ríkulegan ávöxt.
Miklar framkvæmdir eiga sér nú stað sem tengjast uppbyggingu PPC á Bakka. Reiknað er með að á þriðja hundrað ný störf verði til við framleiðsluna í verksmiðjunni og við afleidd störf.
Ekki er ólíklegt að þær framkvæmdir sem tengjast uppbyggingunni á Bakka kosti í heildina um 80 til 90 milljarða sem er svipuð tala og stungið er undan sköttum á Íslandi á hverju ári samkvæmt upplýsingum frá Ríkisskattstjóra.
Við erum að tala um stórar tölur og að uppbyggingunni, sem taka mun um tvö ár, komi um 800 manns. Það verður því mikið undir á Húsavík á allra næstu árum.
Samhliða þessum breytingum er því spáð að íbúum á svæðinu muni fjölga á komandi árum og þörf verði fyrir um 100 nýjar íbúðir.
Reyndar hef ég nú þegar verulegar áhyggjur af húsnæðiskorti í bænum.
Í því sambandi er mikilvægt að bæjaryfirvöld og aðrir hagsmunaaðilar s.s. stjórnvöld, stéttarfélögin og byggingaverktakar taki þegar í stað höndum saman um frekari uppbyggingu á íbúðarhúsnæði á viðráðanlegu verði fyrir kaupendur og/eða leigjendur.
Ljóst er að aukin umsvif bæta verulega tekjuflæðið inn í samfélagið sem leiðir af sér styrkingu innviða og fjölgun starfa í þjónustu- og byggingariðnaði.
Á sama tíma standa öflug framleiðslufyrirtæki á svæðinu sterkt en fram að þessu hafa sjávarútvegur og landbúnaður auk ferðaþjónustu verið megin stoðir atvinnulífsins.
Stór kaupskip sigla nú aftur fulllestuð til og frá Húsavíkurhöfn. Flugfélagið Ernir hefur fjölgað flugferðum til Húsavíkur eins og enginn sé morgundagurinn. Um er að ræða mikil lífsgæði og farþegum fjölgar stöðugt.
Já, ferðaþjónustan eflist og eflist, enda búa Þingeyingar við eina fallegustu umgjörð náttúrufegurðar á Íslandi. Á árinu 2014 heimsóttu um 381 þúsund gestir Þingeyjarsýslurnar. Ekki liggja fyrir endanlegar tölur fyrir árið 2015 en ljóst er að ferðamönnum mun fjölga verulega á komandi árum.
Öflugt atvinnulíf eflir menningar- og listalíf jafnframt því að vera mikilvæg stoð undir æskulýðs og íþróttastarf svo ekki sé talað um skólahald í héraðinu á grunn- og framhaldsskólastigi.
Jafnframt er ástæða til að nefna þær jákvæðu breytingar sem orðið hafa í verslun og þjónustu. Samkaup hafa ráðist í löngu tímabærar breytingar á verslunum keðjunnar á Húsavík sem leiða munu til lækkunar á vöruverði.
Þá eru aðrir þjónustuaðilar að bæta og efla sína þjónustu við viðskiptamenn, ég nefni Olís sem opnar síðar í þessum mánuði glæsilega endurgerða þjónustumiðstöð. Þá er Fosshótel keðjan að endurgera hótelið á Húsavík sem verður einstaklega glæsilegt og opnar á frekari markaðssetningu hótelsins.
Uppsveiflan á svæðinu kallar á þessar breytingar. Verslunarstjóri hér í bæ, tjáði mér á dögunum að veltuaukningin milli ára væri um 30% miðað við sömu mánuði í fyrra. Innspýtingin leynist víða.
Á þessum miklu umrótartímum er mikilvægt að stéttarfélögin í samstarfi við opinbera aðila standi í lappirnar og komi í veg fyrir mansal og kjarasamningsbrot sem því miður virðast fylgja uppsveiflum í byggingariðnaði og ferðaþjónustu. Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum hafa staðið vaktina og komið í veg fyrir undirboð er tengjast um 60 starfsmönnum á undangengnum mánuðum.
Þar kemur til öflugt eftirlit. Markmið stéttarfélaganna er að tryggja að atvinnurekendur virði leikreglur um kjarasamninga, jafnrétti til launa og almennar reglur á vinnumarkaði.
Í heildina hafa stéttarfélögin átt mjög gott samstarf við verktaka og aðra atvinnurekendur á félagssvæðinu.
Þeir sem fara ekki eftir settum reglum eru í miklum minnihluta en grafa undan heiðarlegi atvinnustarfsemi.
Að sjálfsögðu er eðlilegt að skiptar skoðanir geti verið um þær miklu breytingar sem framundan eru á okkar samfélagi bæði stórar og smáar.
Svo hefur alla tíð verið og verður áfram. En við skulum halda umræðunni málefnalegri og án sleggjudóma og virða mismunandi skoðanir fólks.
Ágætu félagar!
Það hefur gengið á ýmsu í þjóðfélaginu undanfarnar vikur, forseti vor Ólafur Ragnar er hættur við að hætta og ríkistjórn Sigmundar Davíðs er farin frá eftir að komst upp um leynireikninga fjölskyldunnar á suðrænum slóðum.
Stjórnendur lífeyrissjóða, fjármálafyrirtækja og fjárfestar hafa einnig verið teknir í bólinu fyrir vafasama gjörninga í gegnum erlend aflandsfélög og eyjar.
Það er ekki annað hægt en að koma aðeins inn á þessi mál sem endurspeglast í spillingu og misskiptingu í þjóðfélaginu sem líkt og illgresi virðist vera erfitt að uppræta, því miður.
Atburðarrásin síðustu vikurnar minnir helst á sýndarveruleika í bíómynd en ekki raunveruleika.
Það eru eftirskjálftar í gangi eftir hrunið mikla og það hriktir í stoðum þjóðfélagsins.
Ég spyr, hvað fær fólk í ábyrgðarstöðum til að blindast af græðgi og siðblindu hvað þá að ljúga að þjóðinni?
Vissulega fyllist maður reiði yfir fréttum síðustu daga um skattaskjól, aflandsfélög og aflandseyjar.
Þá rifjast upp fyrir mér heimsókn sem fulltrúar Framsýnar fengu í aðdraganda hrunsins.
Sendinefnd frá höfuðstöðvum Landsbankans í Reykjavík óskaði eftir fundi með talsmönnum félagsins og kom hún fljúgandi norður í þeim tilgangi.
Nefndin bauð Framsýn upp á einstök kjör og eignastýringu á fjármunum félagsins sem kæmi til með að færa félaginu verulegan ávinning umfram það sem aðrar fjármálastofnanir gætu boðið.
Sannfæringakrafturinn var mikill í málflutningi gestanna, við værum algjörir vitleysingar ef við tækjum ekki tilboði bankans og yfirgæfum þáverandi viðskiptabanka. Ekki stóð til að fara með þessa peninga úr landi heldur átti að „ávaxta“ þá á Íslandi.
Á sama tíma og þessu fór fram voru starfsmenn Landsbankans í Luxemborg að aðstoða kaupsýslumenn á Íslandi að koma peningalegum eignum þeirra fyrir í erlendum skattaskjólum til að bjarga þeim frá Íslandi.
Í stað þess að brauðmolar féllu af háborði yfirstéttarinnar niður til alþýðunnar í landinu fossaði fjármagn þeirra í stórum stíl í erlend skattaskjól. Blóðinu var tappað af þjóðarbúinu.
Ég stæði ekki hér sem formaður hefði ég látið glepjast af tilboði Landsbankans. Framsýn hefði örugglega tapað verulegum fjármunum á gambli bankans með innistæður félagsins. Það átti að framkvæmda rán um hábjartan dag en það mistókst sem betur fer. Vegna fyrirhyggju slapp félagið við áföll og stendur því sterkt um þessar mundir.
Væntanlega má deila um þetta allt saman. Panama gengið sem sumir kalla Tortóla gengið sem Kastljós hefur dregið fram í dagsljósið heldur því fram að það hafi ekkert grætt á þessu öllu saman heldur tapað umalsverðum fjármunum. Þetta sé allt saman stór misskilningur, þeir hafi ekki ætlað að fela neitt og þá brestur minnið. Þá kveðst fjármálaráðherrann ekki hafa haft hugmynd um að hann ætti reikninga í skattaskjólum.
Líkt og fjármálaráðherra hafa íslenskir eigendur aflandsfélaga margir hverjir komið af fjöllum og ekki vitað af tengslum sínum við slík félög. Þeir ýmist stórtöpuðu eða settu hreinlega enga peninga í aflandsfélögin.
Samkvæmt þessum ótrúlegu fullyrðingum hefði verið miklu heillavænlegra fyrir alla þessa aflands elítu að stofna reikninga í Sparisjóði Suður- Þingeyinga hjá Ara Teits og hans frábæra starfsfólki þar sem lopapeysu hagfræðin er í hávegum höfð en ekki hagfræði græðgi og siðblindu.
Sparisjóðurinn hefur í gegnum tíðina ávaxtað fé sparifjáreigenda með miklum ágætum auk þess sem fjármálaráðherra hefði örugglega fengið reglulegt yfirlit yfir innistæður sínar í sparisjóðnum og því verið í stakk búinn að svara fjölmiðlum um hvar hann ávaxtaði sinn sparnað án þess að hiksta og/eða verða gleymskunni að bráð.
Hugsanlega finnst aflandsliðinu sveitó að eiga reikninga í sparisjóði en þess ber að geta að höfuðstöðvar Sparisjóðsins eru í Þingeyjarsveit og þar er einnig aflandseyjan Flatey á Skjálfanda. Skyldi Panamagengið vita af því?
Höfum í huga:
„Sá sem uppvís verður að því að geyma fé sitt utan við samfélag sitt hefur þar með fyrirgert samfélagslegri sæmd sinni. Og mun ekki endurheimta hana með frekju og ofstopa heldur auðmýkt, raunverulegri iðrun og yfirbót.“ Tilvitnun: Guðmundur Andri Thorsson, Fréttablaðið 25. apríl 2016.
En mikið lifandi skelfingar ósköp er gott að eiga ekki peninga eftir allt saman eins og þeir sem prýða Panama skjölin og haldið hafa okkur framan við sjónvarpsskjáinn undanfarnar vikur í villu og svima. Ég held ég biðji aftur um svarthvítu stillimyndina frá árinu 1969.
Að lokum vil ég óska Alþýðusambandi Íslands til hamingju með 100 ára afmælið sem og Verkalýðsfélagi Þórshafnar sem fagnar um þessar mundir 90 ára afmæli félagsins um leið og ég býð ykkur öll velkomin hingað í dag það er gesti, ræðumann og frábæra skemmtikrafta. Jóna Matthíasdóttir mun stjórna samkomunni hér í dag. Ég segi hátíðarhöldin á Húsavík 1. maí í tilefni af baráttudegi verkafólks hér með sett.