Framvegis ryður brautina í endurmenntun atvinnubílstjóra

Framvegis – miðstöð símenntunar er fyrsti viðurkenndi námskeiðshaldarinn sem hlýtur starfsleyfi frá Samgöngustofu vegna endurmenntunar atvinnubílstjóra en leyfið hlaust síðast liðinn miðvikudag. Í því felst að skipulag, innihald og fagstjórn námskeiða hjá Framvegis taki mið af þeim kröfum sem gerðar eru til námskeiðshaldara, bæði í námskrá Samgöngustofu og opinberum reglugerðum er varða endurmenntun bílstjóra.
Framvegis býður atvinnubílstjórum sérsniðin námskeið í endurmenntun sem Samgöngustofa hefur viðurkennt og samræmast ákvæðum í reglugerð nr. 830/2011 um ökuskírteini. Í kjölfar breytinga á umferðarlögum 50/1987 skulu ökumenn sem stjórna ökutækjum í C1-, C-, D1- og D-flokki til farþega- og vöruflutninga í atvinnuskyni gangast undir endurmenntun á fimm ára fresti.
Fyrsta námskeiðið var haldið síðast liðinn laugardag í samstarfi við Eimskip. Nánari upplýsingar gefur starfsfólk Framvegis í síma 5811900 eða í gegnum netfangið bilstjori@framvegis.is