Stéttarfélögin sjá ástæðu til þess að minna á mikilvægi þess að koma í veg fyrir svarta atvinnustarfsemi og undirboð á atvinnumarkaði. Nú þegar stærstu framkvæmdir í sögu Norðurlands standa yfir og ferðaþjónustan vex mikið á milli ára hafa þessi skilaboð aldrei verið mikilvægari. Því miður ber enn á brotum sem þessum, sérstaklega varðandi erlenda sjálfboðaliða.
Verkefnið „Einn réttur – ekkert svindl” er haldið úti af Alþýðusambandi Íslands ásamt aðilarfélögum þess. Verkefnið beinist sérstaklega gegn fyrirtækjum sem misnota erlent vinnuafl og ungt fólk sem er að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði. Við hvetjum alla til að kynna sér verkefnið og senda ábendingu ef grunur leikur á að ekki sé verið virða réttindi vinnandi fólks. Hægt er að senda ábendingu á framsyn@framsyn.is eða í síma 8646602.