Eðvarð var búinn að vera í basli undanfarna daga á flestum vígstöðum. Heima fyrir var hann að klára páskana með tilheyrandi kjöt- og sykurneyslu. Jenever lagerinn hans var tómur en þetta niðurlenska undrameðal var stundum það eina sem hélt honum gangandi. Hvað reksturinn varðar gekk hótelið ekki sem skyldi. Spjátrungurinn sem hann réð til að sjá um tölvumálin sagði að það væri út af slæmum umsögnum á vef sem nefndist „Trip Advisor“. Eðvarð hafði margsagt honum að laga það hið snarasta, hann væri jú einu sinni tölvusérfræðingurinn, Eðvarð sæi um reksturinn og hann kæmi tölvumálum ekkert við. Eðvarð vissi að flestir útlendingar koma bara einu sinni á ævinni í hreppinn til hans og þá væri auðvitað lag að ná sem mestu úr þeim. En nú var internetið komið í stríð við hann. „Farið til fjandans, tölvunirðir þessa heims“, hugsaði Eðvarð á meðan hann setti hangikjötssalatið á mjólkurkexið. Vandamálin í félagslífinu voru þó stærst. Eðvarð var endanlega orðinn að athlægi í Rótarý. Stress-niðurgangurinn um páskana hafði að hluta skýrst af ótta Eðvarðs við lista sem einhverjir kommúnistar hótuðu nú að birta um eignir Íslendinga á breskum paradísareyjum karabíska hafsins. Jakkafataklæddi maðurinn, hjá ráðgjafarfyrirtækinu með erlendu skammstöfuninni, hafði lýst fyrir honum einhverri „hókus-pókus leið“ sem átti að þýða að Eðvarð þyrfti ekki að borga skatt af þessum litla hluta reksturs síns sem ekki tilheyri hinu dásamlega svarta hagkerfi. Miðað við það sem Eðvarð hafði borgað jakkafataklædda manninum dró hann þá ályktun að í þjónustunni hlyti að hafa falist a.m.k. þrjár hringferðir með peningana hans um hnöttinn. Annað
kom þó heldur betur á daginn! Á fyrsta fundi eftir páska var Eðvarð hafður að háði og spotti enda eini meðlimurinn í hreppnum sem var ekki á listanum. Félagar hans hlógu framan í hann og þökkuðu honum fyrir vegina, spítalana og ellilífeyrinn. Eðvarð bar að sjálfsögðu fyrir sig ráðgjöf jakkafatamannsins. Hann hafi öfugt við flesta aðra í raun talið að peningarnir væru í karabíska hafinu en nú vissi hann ekkert hvar þeir voru niðurkomnir. Og það sem verra var að jakkafataklæddi maðurinn hjá fyrirtækinu með erlendu skammstöfunina svaraði ekki í símann.