Í gær var lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög (kennitöluflakk). Flutningsmenn eru fulltrúar allra flokka sem sitja á Alþingi annarra en Sjálfstæðisflokksins. Meginefni frumvarpsins er að lagt til að stofnendur, stjórnarmenn og framkvæmdastjórar hlutafélaga megi ekki á næstliðnum þremur árum hafa verið í forsvari fyrir tvö eða fleiri félög sem orðið hafa gjaldþrota. Hér undir fellur einnig það þegar stofnendur, stjórnarmenn eða framkvæmdastjórar hafa hætt störfum áður en félag verður gjaldþrota og það fært undir stjórn svokallaðra útfararstjóra sem ganga með fyrirtækið í gjaldþrot. Um hæfisskilyrði er að ræða sem einstaklingar, sem ætla að stofna fyrirtæki, gerast stjórnarmenn eða eru ráðnir sem framkvæmdastjórar, þurfa að uppfylla.
Þetta eru fyrstu tilburðir á Alþingi um árabil til að stemma stigu við kennitöluflakki, þrátt fyrir að sá mikil samfélagslegi skaði sem kennitöluflakkið veldur sé löngu þekktur. En kennitöluflakkið þýðir milljarða tap fyrir sameiginlega sjóði landsmanna, auk þess skaða sem það veldur einstaklingum og atvinnulífinu öllu. Að vísu má gagnrýna að ekki sé gengið lengra og lagðar til frekari aðgerðir í baráttunni gegn kennitöluflakkinu. Það ber þó að fagna þessu frumkvæði um leið og vænta má þess að því verði fylgt frekar eftir. Í því sambandi er rétt að minn á tillögur sem Alþýðusambandið hefur sett fram til að sporna gegn kennitöluflakkinu ásamt greinargerð um það efni.
Um leið vekur framtak flutningsmannanna athygli á þeirri staðreynd að iðnaðar- og viðskiparáðherra sem fer með málaflokkinn hefur þrátt fyrir stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar ekki aðeins látið hjá líða að gera nokkuð til að sporna við þeirri samfélagslegu meinsemd sem kennitöluflakkið er heldur hreinlega lagst gegn öllum hugmyndum í þeim efnum. Þannig er haft eftir Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, í frétt á RÚV að hún „efist hins vegar um að frumvarp Karls virki eins og best verði á kosið. Það sé til að mynda of íþyngjandi fyrir nýsköpunarfyrirtæki þar sem menn þurfa oft á tíðum að gera margar tilraunir með rekstur.“ Gera verður kröfu til þess að ráðherrann skýri hvað hún á við, en í greinargerð ASÍ kemur m.a. fram að allmargir einstaklingar hafi á fáum árum sett 10 fyrirtæki eða fleiri í þrot með stórkostlegum skaða fyrir samfélagið. Þar af setti sami einstaklingur 29 fyrirtæki í þrot og fékk að halda áfram óáreittur. Er það nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi að skapi ráðherrans?