Kennitöluflakk veldur miklu samfélagslegu tjóni

Framsýn tekur undir með Alþýðusambandinu og fagnar þeirri umræðu sem skapast hefur í framhaldi af ábendingum ríkisskattstjóra í nýjasta tölublaði Tíundar um það mikla samfélagslega tjón sem skattaundanskot og þá ekki síst kennitöluflakkið veldur. Niðurstaða ríkisskattstjóra er að það vanti 80 milljarða á ári upp á þær skatttekjur sem umsvifin í þjóðfélaginu gefa tilefni til.

Alþýðusamband Íslands hefur lengi gagnrýnt andvaraleysi og ótrúlegt langlundargeð stjórnvalda gagnvart kennitöluflakki og þeim skaða sem slík starfsemi veldur. Í október 2013 lagði ASÍ fram tillögur í 16 liðum um aðgerðir til að sporna við kennitöluflakki. Tillögunum fylgdi ítarleg úttekt á kennitöluflakkinu í íslensku samfélagi og afleiðingum þess.

Með úttektinni og tillögunum vildi ASÍ setja á dagskrá baráttuna gegn þessum skaðvaldi í íslensku atvinnulífi. Jafnframt bendir ASÍ á að kennitöluflakk og svört atvinnustarfsemi þrífast gjarnan hlið við hlið. Tillögurnar voru sendar ráðherrum ríkisstjórnarinnar og boðin fram liðveisla ASÍ við að uppræta þennan ósóma úr íslensku atvinnulífi. Það er skemmst frá því að segja að engin raunverulegur áhugi hefur komið fram hjá stjórnvöldum á að taka á kennitöluflakkinu af einhverri festu.

Það er von Alþýðusambandsins að umræðan nú verði til að ríkisstjórnin og Alþingi vakni til vitundar um mikilvægi þess að taka á þeirri alvarlegu meinsemd sem kennitöluflakkið er. Enn sem fyrr er ASÍ tilbúið til samstarfs í þeim efnum.

Hvað er kennitöluflakk?

Í sinni einföldustu mynd má lýsa kennitöluflakki sem skipulagðri aðgerð einstaklinga þar sem verðmæti eru tekin út úr einu félagi (hf./ehf.) og sett í annað félag en skuldir og aðrar skuldbindingar skildar eftir og félagið síðan sett í þrot. Mörg dæmi eru um keðju slíkra gjörninga vegna sama rekstursins þar sem sömu einstaklingar eru í forsvari. Fullyrða má að þetta athæfi kosti íslenskt samfélag tugi milljarða króna á ári.

Samfélagslegt tjón

Kennitöluflakk og misnotkun á félögum (hf./ehf.) með takmarkaða ábyrgð hefur alvarleg og víðtæk áhrif fyrir samfélagið allt:

• Starfsmenn sem eiga útistandandi launakröfur á hin gjaldþrota félög auk þess að tapa starfi sínu og margvíslegum réttindum.

• Fyrirtæki í hliðstæðum rekstri, og starfsmenn þeirra, sem standa skil á sínu en búa við skekkta samkeppnisstöðu vegna þeirra sem hafa rangt við. Birgja sem fá ekki greidda sína vöru og þjónustu og geta vegna ruðningsáhrifa slíks tjóns, sjálfir orðið gjaldþrota og einstaklingar sem eiga viðskipti við félagið.

• Sameiginlega sjóði landsmanna sem verða af tekjum sem skipta a.m.k. tugum milljarða á hverju ári. Tekjum sem nýta mætti til að bæta heilbrigðis-, velferðar- og menntakerfi svo dæmi séu tekin.