Blendnar tilfinningar hjá starfsmönnum sveitarfélaga

Framsýn stóð fyrir kynningarfundi um nýgerðan kjarasamning Starfsgreinasambands Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga í gærkvöldi. Framsýn á aðild að samningnum. Þrátt fyrir slæmt veður gerðu menn sér ferð á fundinn enda mikilvægt að fólk sé vel inn í sínum málum er varðar kjör og réttindi á vinnumarkaði. Almennt voru menn ánægðir með samninginn og reyndar endurskoðað starfsmat sem gefur fólki umtalsverðar launahækkanir. Hins vegar kom fram megn óánægja með svokallað Salek samkomulag og af hverju því væri blandað inn í kjarasamninginn. Eftir rúmlega tveggja tíma fund var ákveðið að senda eftirfarandi samþykkt frá fundinum þar sem vinnubrögðunum er mótmælt harðlega.

Samþykkt
Félagsfundar Framsýnar með starfsmönnum sveitarfélaga

„Félagsfundur Framsýnar haldinn með starfsmönnum sveitarfélaga gagnrýnir samningsaðila fyrir ákvæði í nýgerðum kjarasamningi Starfsgreinasambands Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Samkvæmt ákvæðinu, sem tiltekið er í inngangi samningsins, skuldabinda samningsaðilar sig til að fylgja launastefnu sem kennt hefur verið við svokallað Salek samkomulag.

Samkomulagið hefur litla sem enga kynningu fengið meðal félagsmanna verkalýðshreyfingarinnar. Með samþykkt samkomulagsins er samningsréttur stéttarfélaga skertur verulega sem og réttur félaganna til boðunar verkfalla.

Fundurinn telur ólíðandi að starfsmönnum sveitarfélaga sé stillt upp með þessum hætti við afgreiðslu samningsins en gerir ekki athugasemdir við samninginn að öðru leiti.

Fundurinn tekur heilshugar undir fyrirvara formanns Framsýnar sem hann gerði með yfirlýsingu við undirskrift samningsins. Þar er því mótmælt að rammasamkomulag aðila vinnumarkaðarins sé hluti kjarasamnings Starfsgreinasambands Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga. „

Miklar umræður urðu um kjarasamning Sambands íslenskra sveitarfélaga og Starfsgreinasambands Íslands á fundinum í gær. Hins vegar voru fundarmenn rasandi yfir Salek samkomulaginu.

Menn voru nokkuð kuldalegir á fundinum í gær enda veðrið ekki með besta móti. Þrátt fyrir það var mætingin á fundinn framar vonum.

Á fundinum var farið yfir nýgerðan kjarasamning og Salek samkomulagið svokallaða sem skerðir samningsrétt stéttarfélaga.

Þessi kona brosir alltaf. Rakel tók þátt í afgreiðslu samþykktar fundarins í gær þar sem gerðar eru athugasemdir við ákvörðun samningsaðila að blanda Salek samkomulaginu inn í kjarasamning aðila. Ályktun  fundarins var samþykkt samhljóða.