Fjölmenni á Hrútadegi á Raufarhöfn

Hinn árlegi Hrútadagur var haldinn hátíðlegur á Raufarhöfn síðasta laugardag. Mikið fjölmenni var saman komið til að taka þátt í deginum sem kom víða að, það er úr flestum landshlutum. Gestum var boðið upp á þétta dagskrá allan daginn og reyndar vel fram á kvöldið. Mikil spenna var í loftinu þegar fallegustu hrútarnir voru boðnir upp en uppboðið hófst kl. 17:00. Uppboðið gekk vel og seldust á annan tug hrúta frá þekktum fjárbúum í Þistilfirði og Öxarfirði. Kótelettufélag Íslands var á svæðinu og valdi kótelettuhrút ársins sem að þessu sinni kom úr Laxárdal í Þistilfirði, glæsilegur hrútur með mjög margar kótelettur. Hrúturinn og eigandinn voru verðlaunaðir sérstaklega. Sjá myndir frá hátíðarhöldunum.