LÍV leggur fram launakröfur vegna komandi kjarasamninga

Landssamband ísl. verzlunarmanna, LÍV, kynnti Samtökum atvinnulífsins launkröfur sínar í komandi kjarasamningum á fundi þann 13. febrúar. LÍV leggur áherslu á að leiðrétta laun félagsmanna miðað við þær launahækkanir sem orðið hafa á vinnumarkaði síðustu misseri og metur kostnaðarauka atvinnulífsins innan þeirra marka sem fyrirtækin þola.

Meginatriði í launakröfum LÍV eru:

1. Að samið verði til eins árs þar sem meðalhækkun launa er kr. 24.000, m.v. fullt starf.

2. Við launahækkanir verði stuðst við launaþróunartryggingu að hámarki kr. 50.000 m.v. fullt starf. Frá þeirri upphæð dragast launahækkanir á tímabilinu 1. janúar 2014 til 28. febrúar 2015, þ.e. 2,8% sem samið var um í síðustu kjarasamningum og allar hækkanir umfram það.

3. Að lágmarkslaun fyrir fullt starf verði kr. 254 þúsund.

4. Kostnaðarauki atvinnulífsins vegna launakrafna LÍV er kr. 6,9 milljarðar eða 5,35% að mati félagsins.

Samningur til skemmri tíma

LÍV telur skynsamlegt að gera kjarasamning til skemmri tíma. Staðan á vinnumarkaði og í efnahagslífinu bindur hendur okkar og litlar forsendur eru fyrir langtímasamningi. Stöðugleiki í íslensku efnahagslífi stendur ótryggum fótum þar sem óvissa ríkir um afnám gjaldeyrishaftanna á þessu ári.

Launaþróunartrygging

Hækkanir í kjarasamningum opinberra starfsmanna síðustu misseri liggja til grundvallar kröfum LÍV um launabreytingar. Launaþróunartrygging, sem einnig er kölluð baksýnisspegill, er að mati LÍV best til þess fallin að leiðrétta á sanngjarnan hátt laun félagsmanna m.t.t þessara hækkana. Kröfugerðin leggur áherslu á að hækka laun þeirra sem lægstu launin hafa sem og millitekjuhópsins.

LÍV gerir kröfu um launaþróunartryggingu að upphæð kr. 50 þúsund fyrir þá starfsmenn sem hafa verið í starfi hjá sama launagreiðanda frá 31. desember 2013. Frá þessari upphæð dragast allar launahækkanir á tímabilinu frá 1. janúar 2014 til 28. febrúar 2015.

Grunnhækkunin, kr. 50.000, miðar þannig við laun félagsmannsins áður en núgildandi kjarasamningur tók gildi og dragast launahækkanir hans á gildistíma núverandi samnings frá. Það þýðir að 2,8% almenn launahækkun í upphafi árs 2014 og allar hækkanir umfram það dragast frá þessari grunnhækkun.

Hér er um að ræða leiðréttingu á síðasta kjarasamningi í ljósi þróunarinnar á vinnumarkaði frá því hann var gerður. Meðalhækkun félagsmanna samkvæmt þessum kröfum er um kr. 24 þúsund miðað við þau laun sem þeir hafa í dag, þeir sem hafa lægri laun fá hærri krónutöluhækkun en þeir sem hafa hærri laun.

Dæmi um launaþróunartryggingu (miðað er við laun fyrir fullt starf):

Félagsmaður með lágmarkslaun í lok desember 2013 fékk kr. 204.000 í laun. Þann 1. janúar 2014 hækkuðu laun hans í kr. 214.000, skv. kjarasamningum. Launaþróunartrygging myndi færa þessum félagsmanni kr. 40.000 hækkun og yrðu laun hans því kr. 254.000 á mánuði.

Félagsmaður sem hafði kr. 350.000 í lok desember 2013 hækkaði í kr. 359.800 þann 1. janúar 2014 eða um 2,8%. Launaþróunartrygging myndi færa þessum félagsmanni kr. 40.200 hækkun og yrðu laun hans kr. 400.000 á mánuði.

Félagsmaður sem hafði kr. 700.000 í lok desember 2013 hækkaði í kr. 719.600 þann 1. janúar 2014 eða um 2,8%. Launaþróunartrygging myndi færa þessum félagsmanni kr. 30.400 og yrðu laun hans kr. 750.000 á mánuði.

Við útreikning á launaþróunartryggingu skal miða við heildarlaun, þ.e. föst og reglubundin viku- eða mánaðarlaun að viðbættum föstum álags- eða aukagreiðslum hverju nafni sem þær nefnast.

Grunnupphæð þeirra sem hófu störf á tímabilinu 2. janúar til 31. desember 2014 er kr. 30.000, að frádregnum launahækkunum á tímabilinu frá 2. janúar 2014 til 28. febrúar 2015.

Kostnaður fyrirtækja er 5,35%

Samkvæmt útreikningum nemur kostnaðaraukning atvinnulífsins vegna launahækkunar félagsmanna 6,9 milljörðum króna eða sem nemur 5,35%. Þá er ekki búið að taka tillit til þess að launahækkun leiðir til aukinnar einkaneyslu sem aftur skilar sér í tekjuaukningu fyrirtækja. Um 75-80% af launum fara í neyslu að meðaltali og má því gera ráð fyrir því að um 4 milljarðar af launahækkuninni, að teknu tilliti til skatta, skili sér aftur til atvinnulífsins. Það er vel innan þess ramma sem ásættanlegt er að mati LÍV.