Vigdís frá VIRK í heimsókn

Í gær fengu stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum góðan gest, Vigdísi Jónsdóttur framkvæmdastjóra Virk – starfsendurhæfingarsjóðs. Verkefni heimsóknarinnar var að eiga samráð við forsvarsmenn stéttarfélaganna á svæðinu og skiptast á upplýsingum í því augnamiði að þróa áfram og styrkja þjónustu Virk í Þingeyjarsýslum.

Virk – starfsendurhæfingarsjóður var stofnaður af aðilum vinnumarkaðarins í kjarasamningum 2008. Framsýn – stéttarfélag, Starfsmannafélag Húsavíkur, Þingiðn og Verkalýðsfélag Þórshafnar eru aðilar að Virk. Launagreiðendur í Samtökum atvinnulífsins, sveitarfélög og ríki eru jafnframt aðilar að Virk.

Markmið aðila vinnumarkaðarins með starfsemi Virk er að draga markvisst úr líkum á því að einstaklingar með skerta starfsgetu í kjölfar veikinda og slysa hverfi af vinnumarkaði. Með öflugu neti ráðgjafa í starfsendurhæfingu, þéttu samstarfi og stuðningi við einstaklinga og samvinnu við heilbrigðisþjónustu og aðra aðila á sviði starfsendurhæfingar hefur verið byggt upp heilstætt kerfi starfsendurhæfingar, sem skilar góðum árangri. Í Þingeyjarsýslum starfar ráðgjafi Virk á skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík.

—–

Í máli Vigdísar kom fram að vel hefur tekist til með þróun og þjónustu Virk á landsvísu og í Þingeyjarsýslum. Þjónustu- og árangursmælikvarðar sýna að einstaklingar hafa náð góðum árangri í starfsendurhæfingu, eru mjög sáttir við stuðning og þjónustu Virk og góð samvinna er við aðra sem koma að starfsendurhæfingarferlinu. Einnig hefur vakið athygli að þáttur stjórnenda fyrirtækja og stofnana í Þingeyjarsýslum í stuðningi við starfsmenn sem kljást við afleiðingar veikinda og slysa og eru í starfsendurhæfingarferli er virkur og styðjandi og samstarf við Virk árangursríkt. Matsferli Virk, til stuðnings starfsendurhæfingarferlinu, sem innifelur sérhæft mat og starfsgetumat hefur verið í þróun í sex ár og hafa fengið athygli og stuðning víða hjá samstarfsaðilum í velferðarkerfinu og stjórnvöldum á Íslandi. Einnig hefur fjöldi erlendra sýnt ferlinu og matinu áhuga.

Þannig má segja að Virk – starfsendurhæfingarsjóður hafi almennt góða meðgjöf og stuðning frá stéttarfélögunum, launagreiðendum á almennum og opinberum markaði og samtarfsaðilum í heilbrigðis- og velferðarþjónustunni, enda hafa þessir aðilar séð með áþreifanlegum hætti að framlag atvinnulífsins til starfsendurhæfingar hefur skipt miklu máli. Nokkurn skugga hefur borið á samstarf við ríkisstjórn landsins, því núverandi ríkisstjórn og meirihluti Alþingis kusu við gerð fjárlaga fyrir yfirstandi ár að efna ekki samkomulag um greiðslu fyrir verkefni sem Virk – starfsendurhæfingarsjóður hafði yfirtekið fyrir ríkið frá árinu 2014.

Fyrir liggur að aðilar stefna eindregið að því að Virk – starfsendurhæfingarsjóður verði áfram virkur og mótandi aðili í starfsendurhæfingu á svæðinu.

Allar nánari upplýsingar um starfsemi og stuðning Virk – starfsendurhæfingarsjóðs má nálgast á heimasíðu sjóðsins www.virk.is og hjá Ágústi Sigurði Óskarssyni ráðgjafa Virk, sem starfar á skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík.