Hugur í mönnum

Samninganefnd Starfsgreinasamband Íslands kom saman til fundar í gær í Karphúsinu. Mikill hugur er í samninganefndinni og greinilegt er að viðhorf Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambands Íslands fara ekki saman hvað varðar væntingar um launahækkanir í næstu kjarasamningum. Samtök atvinnulífsins tala fyrir 3 til 4% launahækkun og hefur Þorsteinn Víglundsson framkvæmdastjóri sambandsins talað fyrir því að ekki verði lengra gengið í að hækka lægstu launin. Formaður Framsýnar sem situr í Samninganefnd SGS telur yfirlýsingar framkvæmdastjórans og hugmyndir SA móðgandi. Nú ríði á að leiðrétta laun verkafólks til samræmis við aðrar stéttir launþega í landinu sem sumar hverjar hafa fengið verulegar hækkanir að undanförnu.

Starfsgreinasambandið hefur óskað eftir tillögum aðildarfélaga sambandsins um hækkanir á launum félagsmanna. Hugmyndir félaganna þurfa að liggja fyrir í síðasta lagi 20. janúar. Í lok mánaðarins verður gengið á fund Samtaka atvinnulífsins og þeim gerð grein fyrir sameiginlegri launakröfu aðildarfélaga SGS. Framsýn hefur ákveðið að boða til félagsfundar í næstu viku þar sem kallað verður eftir tillögum félagsmanna. Í kjölfarið verður gengið frá kröfugerðinni og henni komið til Starfsgreinasambandsins sem fer með samningsumboð félagsins.

Málflutningur Samtaka atvinnulífsins hefur verið með ólíkindum síðustu vikurnar. Þeir telja nóg komið, ekki sé ástæða til að hækka lægstu launin sérstaklega og bera því við að þau hafi hækkað umfram önnur laun síðustu árin. Þvílíkt rugl.

Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Á. Baldursson, á von á hörðum kjaraviðræðum á næstu vikum og verkföllum. Markmið Samtaka atvinnulífsins sé að viðhalda fátækt og misskiptingu í þjóðfélaginu sem endurspeglist í tillögum þeirra um launahækkanir.

Setið á fundi í Karphúsinu. Samninganefnd SGS fór yfir málin í gær og næstu skref í kjaraviðræðum við SA.