Vísir bakkar- Starfsmenn teknir inn á launaskrá

Í fréttum Ríkissjónvarpsins í gær kom fram að fiskvinnslufyrirtækið Vísir hf. hefði ákveðið að virða ákvæði kjarasamninga og greiða þeim starfsmönnum fyrirtækisins sem starfað hafa á Húsavík laun í uppsagnarfresti.

Eins og fram hefur komið boðaði fyrirtækið lokun með mánaðar fyrirvara með þeim skilaboðum að starfsmenn ættu að skrá sig atvinnulausa frá 1. maí sl.  Þessu mótmælti Framsýn og taldi að þar með væri fyrirtækið að brjóta ákvæði kjarasamninga, starfsmenn ættu rétt á að Vísir greiddi þeim uppsagnarfrestinn á þeim forsendum að fyrirtækið væri að hætta rekstri á Húsavík.

Framsýn kom þessum skoðunum á framfæri við forsvarsmenn fyrirtækisins og fundaði einnig með Vinnumálastofnun þar sem því var mótmælt að fyrirtækið kæmist upp með þessi vinnubrögð. Þá hafa lögmenn Framsýnar unnið að því undanfarna daga að útbúa stefnu á hendur fyrirtækinu vegna brota á gildandi kjarasamningi.

Á fundi sem forsvarsmenn Vísis boðuðu til með starfsmönnum  í gær kom fram að þeir ætluðu að taka starfsmenn inn á launaskrá aftur frá og með 1. maí og gera við þá starfslokasamninga. Þeir bera við áliti sem þeir hafi frá Vinnumálastofnun sem meini þeim að fara þá leið sem þeir ætluðu. Vísismenn hafa hins vegar ekki haft fyrir því að ræða málið við talsmenn Framsýnar og gera þeim grein fyrir þessum fyrirætlunum í kjölfar mótmæla félagsins.   

Fulltrúar Framsýnar munu funda með lögmönnum félagsins eftir helgina og ákveða næstu skref í málinu. Ljóst er að starfsmenn eru mjög ánægðir með niðurstöðuna í ljósi aðstæðna og Framsýn hafa borist þakkarbréf og hringingar frá starfsmönnum og öðrum þeim sem fylgst hafa með málinu með þakklæti fyrir baráttuna fyrir réttlætinu.

 Starfsmenn Vísis hf. sem ákveðið hafa að fara ekki með fyrirtækinu suður til Grindavíkur í haust hafa verið teknir aftur inn á launaskrá hjá fyrirtækinu. Sigur fyrir starfsmenn segir formaður Framsýnar, Aðalsteinn Á. Baldursson.