Áhugavert verkefni um ristilskimun í gangi

Lionsklúbburinn á Húsavík í samstarfi við Heilbrigðisstofnun Þingeyinga stóðu fyrir kynningarfundi um samstarfsverkefni sem aðilar hafa unnið að síðustu ár og varðar skipulagða ristilskimun meðal fólks á ákveðnum aldri á starfssvæði Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga. Verkefninu er ætlað að standa yfir í fimm ár til reynslu og verður þá endurmetið. Verkefnið byggir á því að bjóða öllum konum og körlum á aldrinum 55 ára ókeypis ristilspeglun. Byrjað var á Þingeyingum sem fæddust á árinu 1957 og síðan koll af kolli.

Ásgeir Böðvarsson læknir og meltingarsérfræðingur ásamt Ingunni Indriðadóttir hjúkrunarfræðingi gerðu grein fyrir helstu niðurstöðum rannsóknarinnar fyrir árið 2013 en 47 einstaklingar tóku þátt í ristilskimun það ár.

 Lionsmenn úr öðrum héruðum komu til að kynna sér verkefnið sem vakið hefur athygli víða um land. Lionsmenn á Húsavík ásamt HÞ eiga heiður skilið fyrir þetta framtak. Þess má geta að nokkrir aðilar styrkja verkefnið með fjárframlögum, þar á meðal stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum sem telja þessum peningum vel varið í þetta mikilvæga verkefni.

Lionsmönnum, gestum og stuðningsaðilum var boðið á kynninguna.

Hér má sjá fjóra Lionsmenn frá Akureyri hlýða á Ásgeir fara yfir helstu niðurstöður sem vöktu athygli þeirra.

Lionsmenn buðu gestum upp á ljómandi góða súpu sem Árni Vill töfraði fram.