Þegar þetta er skrifað stendur yfir atkvæðagreiðsla um sáttatillögu ríkissáttasemjara sem hann lagði fram 21. febrúar 2014 í kjaradeilu Framsýnar og Samtaka atvinnulífsins. Áður höfðu félagsmenn Framsýnar felld kjarasamning Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins sem undirritaður var 21. desember 2013. Framsýn ásamt öðrum stéttarfélögum innan SGS var aðili að þeim samningi fyrir utan Flóabandalagsfélögin. Innan Starfsgreinasambandsins eru nítján stéttarfélög.
Kjarasamningurinn fór í ruslflokk
Eins og fram hefur komið var kjarasamningurinn kolfelldur. Auk Framsýnar neituðu fjögur félög innan Starfsgreinasambandsins að skrifa undir kjarasamninginn þar sem þau töldu hann ekki boðlegan verkafólki. Í kjölfarið komu allskonar ásakanir í garð þessara félaga frá forystumönnum Alþýðusambands Íslands. Gert var lítið úr málflutningi talsmanna áðurnefndra stéttarfélaga auk þess sem fjölmiðlar voru varaðir við að tala við lýðskrumarana svokölluðu. Auk þess var „Facebook“ síða Alþýðusambandsins notuð til að koma höggi á félögin, m.a. með því að birta grein Sighvats Björgvinssonar sem hann skrifaði í Fréttabréfið á gamlársdag. Í greininni fer hann ófögrum orðum um málflutning stéttarfélaganna sem höfðu það að leiðarljósi að berjast fyrir kjörum þeirra lægst launuðu og sambærilegum skattalækkunum til allra, ekki bara til þeirra tekjuhærri. Undarleg jafnaðarmennska hjá svokölluðum jafnaðarmanni, Sighvati Björgvinssyni, sem lagðist í skrifum sínum gegn þessum jöfnuði.
Djúpstæður ágreiningur
Þetta sýnir þá djúpstæðu gjá sem er innan verkalýðshreyfingarinnar, meðan forystumenn ASÍ héldu uppi áróðri gegn félögunum fimm var alþýðan á bandi félaganna auk þess sem fjölmiðlar fjölluðu málefnalega um stöðuna og gáfu fimmmenningunum tækifæri á að koma sínum viðhorfum á framfæri. Undirritaður hefur móttekið ófá símtöl, pósta og kveðjur með baráttukveðjum fyrir að halda málflutningi láglaunafólks á lofti. Fyrir það ber að þakka. Þá hefur umsóknum um félagsaðild frá verkafólki sem starfar fyrir utan félagssvæði Framsýnar fjölgað verulega, sérstaklega frá Eyjafjarðarsvæðinu.
Það að kjarasamningurinn skyldi felldur af félagsmönnum víða um land staðfestir málstað okkar sem lögðumst gegn kjarasamningum. Að sama skapi fór lítið fyrir gleðinni hjá þeim formönnum sem höfðu lagt mikla áherslu á að samningarnir yrðu samþykktir þrátt fyrir að innihaldið væri afar rýrt. Reyndar eru sumir þeirra ekki enn búnir að jafna sig eftir áfallið en munu væntanlega taka „glaðir“ við þeirri kjarabót sem fellst í sáttatillögu ríkissáttasemjara verði hún samþykkt af félagsmönnum. Sáttatillagan kemur þá til viðbótar þeim kjarasamningi sem var felldur í atkvæðagreiðslunni í janúar.
Meðbyrinn sem hvarf
Í stað þess að nýta sér stöðuna og meðbyrinn sem var til staðar eftir að kjarasamningurinn var felldur til góðra verka fyrir félagsmenn SGS stofnaði formaður sambandsins og Einingar-iðju gengi til höfuðs tveimur formönnum, undirrituðum og Vilhjálmi Birgissyni formanni Verkalýðsfélags Akraness. Einingargengið var ræst út og fór í viðræður við Samtök atvinnulífsins án aðkomu Framsýnar og Verkalýðsfélags Akraness sem endaði með því að ríkissáttasemjari lagði fram sáttatillögu. Skytturnar tvær frá Húsavík og Akranesi voru settar á bekkinn enda of kröfuharðir. Svona vinnubrögð eru forkastanleg svo ekki sé meira sagt. Í þessu sambandi er rétt að geta þess að félögin tvö, Framsýn og Verkalýðsfélag Akraness njóta mestrar virðingar meðal félagsmanna allra stéttarfélaga innan Starfsgreinasambands Íslands. Árangur Framsýnar er einstakur þar sem 97% félagsmanna sögðust ánægðir með starfsemi félagsins og 3% tóku ekki afstöðu. Þessa könnun framkvæmdi Starfsgreinasamband Íslands fyrir nokkrum árum. Framsýn kallar eftir nýrri viðhorfskönnun meðal félagsmanna sambandsins.
Í ljósi þessa er athyglisvert að svokallaðir samherjar í verkalýðshreyfingunni skuli nota hvert tækifæri sem þeir hafa til að stinga sveðjum í bakið á formanni Framsýnar og Verkalýðsfélags Akraness.
Baráttan skilaði árangri
Varðandi síðustu kjarasamninga er gleðilegt að barátta þeirra félaga sem neituðu að skrifa undir kjarasamninginn, þar sem hann væri ekki boðlegur verkafólki, skilar verkafólki auknum kjarabótum í gegnum sáttatillögu ríkissáttasemjara í formi hærri desemberuppbótar, orlofsuppbótar og eingreiðslu fyrir janúar. Baráttan skilaði sýnilegum árangri. Niðurstaðan hefði getað orðið betri en samstöðuleysið kom í veg fyrir það sem skrifast á þá verkalýðsforingja sem klufu hreyfinguna.
Mín skoðun er sú að það sé betra að synda á móti straumnum í stað þess að fljóta dauður með straumnum. Það mun ég gera áfram með hagsmuni félagsmanna að leiðarljósi.
Aðalsteinn Á. Baldursson