Skytturnar á bekkinn

Það er október 2013, um 130 þingfulltrúar sitja á þingi Starfsgreinasambands Íslands á Akureyri frá nítján aðildarfélögum sambandsins.  Einhugur er á þinginu og kröftug kjaramálaályktun er samþykkt. 

Þar koma fyrir setningar eins og: „Þing Starfsgreinasambandsins fordæmir skattabreytingar sem færa tekjuhæstu hópum samfélagsins umtalsverða skattalækkun á meðan skattbyrði láglaunahópa helst óbreytt og krefst þess að því svigrúmi sem er til skattalækkana verði ráðstafað til þeirra sem minnst hafa milli handanna. Þing Starfsgreinasambandsins vill brjóta á bak aftur þá láglaunastefnu sem hefur ríkt hér á landi á undanförnum árum og áratugum. Barist verður af alefli fyrir því að lagfæra kjör verkafólks svo um munar í komandi kjarasamningum“! Tilvitnun líkur. 

Menn börðu sér á brjóst
Já, það var mikill baráttuandi á þinginu. Til að fylgja góðu þingi eftir var boðað til formannafundar þar sem endanleg kröfugerð var mótuð í anda niðurstöðu þingsins. Ákveðið var að fara fram á  20 þúsund króna hækkun á lægstu laun en kauptaxtar Starfsgreinasambandsins eru á bilinu kr. 192.000 til kr. 228.000. Jafnframt yrði þess krafist í viðræðum við stjórnvöld að skattar hjá þeim tekjulægstu yrðu lækkaðir. 

Þann 17. desember þegar lítið hafði gengið í viðræðum við Samtök atvinnulífsins kom samninganefnd Starfsgreinasambandsins sér saman um að hefja auglýsingaherferð eftir áramótin jafnframt því að undirbúa aðgerðir til að ná fram nýjum kjarasamningi. 

Það kom því flestum verulega á óvart þegar haft var samband við okkur formennina að morgni 20. desember þar sem okkur var tjáð að forseti Alþýðusambands Íslands hefði setið á næturfundi með Samtökum atvinnulífsins og nýr kjarasamningur væri í burðarliðnum. Síðar þann dag þegar við settumst yfir samningsdrögin og drög að minnisblaði frá ríkisstjórninni kom í ljós að niðurstaðan var langt frá þeim markmiðum sem Starfsgreinasambandið hafði sett sér. Sá sem þetta skrifar ásamt formönnum nokkurra annarra stéttarfélaga innan sambandsins gerðu alvarlegar athugasemdir við drögin. 

Samstaðan brast
Á þessum tímapunkti var ljóst að samstaðan var að bresta innan SGS. Enda fór svo að 21. desember var skrifað undir nýjan kjarasamning og ríkistjórnin lagði fram yfirlýsingu varðandi nokkra þætti sem hún ætlaði að vinna að til að skapa stöðugleika í þjóðfélaginu. Ég sagðist ekki treysta mér til að skrifa undir kjarasamninginn í ljósi þess að hann væri ekki ásættanlegur fyrir verkafólk. Auk þess miðuðust skattatillögur stjórnvalda að því að þeirri tekjuhærri fengju góðar skattalækkanir meðan þeir tekjulægstu á töxtum Starfsgreinasambandsins fengju engar skattalækkanir. Þá varaði ég við því að kjarasamningurinn yrði felldur, verkafólk kæmi ekki til með að samþykkja samninginn. 

Það sorglega er að ASÍ hafði áður lagt fram tillögur að skattkerfisbreytingum sem miðuðu að því að skilja þá tekjulægstu eftir líkt og tillögur ríkistjórnarinnar báru með sér. Reyndar sagði formaður Starfsgreinasambands Íslands á fundi með okkur formönnunum innan sambandsins að hann styddi tilögur ASÍ í skattamálum sem hann gerði án þess að leita eftir okkar afstöðu. Ég trúi því ekki að hans félagsmenn hafi verið sáttir við að horfa á eftir skattalækkunum til þeirra tekjuhærri. 

Menn hrópuðu Lýðskrumarar
Eftir undirskriftina byrjuðu harðar umræður um kjarasamninginn. Formennirnir sem stóðu í lappirnar og neituðu að skrifa undir kjarasamninginn í ljósi lélegra hagsbóta fyrir verkafólk  voru kallaðir lýðskrumarar af elítu ASÍ. Þar á bæ voru menn fljótir að setja niðurstöðuna upp í exel skjal. Aðeins 5% félagsmanna innan sambandsins væru óánægðir með kjarasamninginn meðan 95% félaga hefði skrifað undir kjarasamninginn. Framhaldið þekkja menn, kjarasamningurinn var kolfelldur innan Starfsgreinasambandsins og hjá nokkrum stórum félögum og aðildarsamböndum innan ASÍ. 

Niðurstaðan olli miklum vonbrigðum hjá þeim formönnum sem höfðu mælt með samningnum og sumir þeirra eru enn í sárum. Þeir vilja ekki síst kenna þeim formönnum sem mæltu gegn samþykkt kjarasamnings hvernig fór og beina reiðinni að þeim. Þeir standa væntanlega enn í þeirri trú að kjarasamningurinn hafi verið eintaklega góður og félagsmönnum hafi borið að samþykkja hann. 

Reiðin endurspeglast ekki síst í ákvörðun formanns Starfsgreinasambandsins að bjóða formönnum annarra stéttarfélaga en Framsýnar og Verkalýðsfélags Akraness að vera með í bandalagi stéttarfélaga innan SGS. Reyndar var Verkalýðsfélagi Þórshafnar ekki boðið að vera með, væntanlega til að koma í veg fyrir að formaður Framsýnar kæmist að borðinu, sem hefur verið ráðgjafi Verkalýðsfélags Þórshafnar í kjaramálum. 

Dæmdir fyrir að fylgja eftir samþykktum SGS
Formenn Framsýnar og VA hafa í einu og öllu fylgt eftir kjaramálaályktun þings SGS. Af hverju þeirra skoðanir eiga ekki upp á pallborðið hjá öðrum formönnum sambandsins er óskiljanlegt þar sem allir formennirnir stóðu að eftirfarandi ályktun: 

Þing Starfsgreinasambandsins fordæmir skattabreytingar sem færa tekjuhæstu hópum samfélagsins umtalsverða skattalækkun á meðan skattbyrði láglaunahópa helst óbreytt og krefst þess að því svigrúmi sem er til skattalækkana verði ráðstafað til þeirra sem minnst hafa milli handanna.

Þing Starfsgreinasambandsins vill brjóta á bak aftur þá láglaunastefnu sem hefur ríkt hér á landi á undanförnum árum og áratugum.

Barist verður af alefli fyrir því að lagfæra kjör verkafólks svo um munar í komandi kjarasamningum!

Væntanlega mun svo næsta þing Starfsgreinasambands Íslands bera yfirskriftina „Sameinuð til sóknar“. Það er full ástæða til að gera alvarlegar athugsemdir við þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið í þessu máli. Það er skrýtið leikkerfi að svokallaðir samherjar hafi tekið skytturnar tvær úr umferð og vísað þeim á bekkinn, þeim sem hvað mest hafa barist fyrir hækkun lægstu launa í anda samþykkta Starfsgreinasambands Íslands. Mönnum sem njóta mikillar virðingar verkafólks í landinu og margra annarra fyrir áherslur sínar. 

Lítil mús að fæðast
Því miður eru allar líkur á því að gengið verði frá nýjum kjarasamningi á næstu dögum án aðkomu Framsýnar og VA með litlum sem engum hækkunum til viðbótar þeim sem þegar hefur verið samið um. Heyrst hefur að fíllinn hafi tekið jóðsótt og lítil mús sé að fæðast í karphúsinu. Formenn þeirra félaga sem koma til með að standa að þessum kjarasamningi eru ekki í öfundsverðu hlutverki ef þeir fá nýjan samning ekki samþykktan. Þess vegna er mikilvægt að hann innihaldi umtalsverðar hækkanir til verkafólks sem sættir sig ekki við að starfa á launum sem eru langt undir boðlegum mörkum. 

Framsýn og Verkalýðsfélagi Akraness er ekki hleypt að borðinu en verður gert að taka við gjörningnum frá bandalagi Einingar- Iðju og Samtaka atvinnulífsins. Þessi tvö félög, Framsýn og VA, hafa ekki burði til að gera góða hluti ein og sér. Það hefur alltaf legið fyrir. Sóknartækifærin felast í samstöðunni en á meðan skytturnar eru hvíldar á bekknum skora þær ekki mörk fyrir sitt lið hjá mótherjanum sem er SA. Að sjálfsögðu gleðjast SA menn yfir því að spila við laskað lið SGS. Það er næsta víst, eins og Bjarni Fel sagði svo oft í lýsingum frá kappleikjum. 

Aðalsteinn Á. Baldursson