Martin Varga endurvekur Tungulendingu

Þjóðverjinn Martin Varga sem er búsettur á Húsavík skrifaði nýverið undir samninga um kaup á söltunarhúsinu í Tungulendingu og langtímaleigu á lóð hreppsins í kringum húsið.

,,Hugmyndin er að setja upp kaffihús og gistiaðstöðu fyrir ferðafólk yfir sumartímann með möguleikum á fjölbreyttari starfsemi á borð við námskeiðahald, listasmiðjur og vinnuaðstöðu fyrir listamenn,“ sagði Martin er hann kíkti í heimsókn á skrifstofu Framsýnar og kynnti þetta verkefni fyrir okkur.

,,Mig langar líka til þess að gera sögu grásleppuútgerðarinnar á Tjörnesi skil og einnig hinum merku jarðlögum sem teygja sig frá Köldukvísl út í Breiðuvík,“ bætti Martin við.

 ,,Eins og ég segi þá snýst þetta mikið um að njóta möguleikana sem að eru til staðar þarna. Kveikja varðeld, veiða, kajak og vera saman í fallegu umhverfi. Ég er að vinna með góðu fólki frá Húsavík við það að hanna viðbætur við húsið sem gengur vel og stefnan er sett á að hefja starfsemi næsta sumar 2014,“ segir Martin bjartsýnn.

Það verður gaman að fylgjast með þessu áhugaverða verkefni Martins og óskum við honum góðs gengis með endurvakningu Tungulendingu.