Gengu frá samkomulagi í morgun

Fulltrúar Framsýnar og Norðurþings gengu frá samkomulagi í morgun er varðar túlkun á grein 5.7.7.1 í kjarasamningi aðila um greiðslur til starfsmanna er búa í þéttbýli og sækja vinnu utan þéttbýlis á vegum sveitarfélagsins. Nokkur dæmi eru um að við sameiningar sveitarfélaga á svæðinu hafi stofnanir verið sameinaðar og störf þar með færð til milli svæða. Til að koma til móts við þessa hagræðinu og skipulag er tryggt að starfsmenn fá ákveðna greiðslu fyrir ferðatíma og ferðakostnað enda gert ráð fyrir því í kjarasamningum að samningsaðilar gangi frá samkomulagi þess efnis. Samkomulagið er eftirfarandi:

Samkomulag

Um meðferð á grein 5.7.7.1 í kjarasamningi aðila

Í grein 5.7.7.1 í kjarasamningi Framsýnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga er kveðið á um eftirfarandi í grein 5.7.7.1:

„Sé stofnun staðsett í a.m.k. 5km utan ytri marka næsta þéttbýlis skal semja við viðkomandi stéttarfélög um greiðslu ferðakostnaðar og ferðatíma starfsmanna sem ekki búa á staðnum.“

Aðilar eru sammála um að greiða þeim starfsmönnum sem falla undir þessa grein kr. 29,55 fyrir hvern ekinn km í ferðakostnað og ferðatíma. Það er að frádregnum 5km. Sjá frekar skýringu I og II.

Starfsmönnum er aðeins greiddur ferðakostnaður og ferðatími í þeim tilfellum þar sem ekki eru í boði ferðir á vegum sveitarfélagsins og með samþykki næsta yfirmanns starfsmanna sem ætlað er að halda utan um ferðir starfsmanna.

Komi til ágreinings milli starfsmanna og næsta yfirmanns viðkomandi starfsmanns um greiðslur vegna  þessara þátta skal vísa honum til sérstakrar nefndar sem verður starfandi á vegum Norðurþings og Framsýnar.

Samkomulag þetta er uppsegjanlegt með þriggja mánaða fyrirvara. Komi til þess að Framsýn og Samband íslenskra sveitarfélaga semji um fyrirkomulag greinarinnar fellur þetta samkomulag sjálfkrafa úr gildi.

Húsavík 18. júlí 2012

Með venjulegum fyrirvara

Fh. Norðurþings                                                                   Fh. Framsýnar

Skýring I:

Starfsmenn sem starfa á stofnun sem er t.d. 30km frá ytri mörkum þéttbýlis skulu fá 25km greidda fari þeir aðra leiðina og 50km fari þeir báðar leiðirnar á eigin bíl. Alls dragast 5km frá í hvert skipti.

Skýring II:

Viðmiðunargjald í samkomulagi þessu á ekinn km breytist í hlutfalli við breytingu á viðmiðunartaxta Tryggingarstofnunar ríkisins.