Óþolandi ástand

Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni, segir það gjörsamlega óþolandi ástand að ekki sé til staðar kjarasamningur á landsvísu fyrir sjómenn á smábátum að 15 brúttótonnum. Það sé mannréttindabrot. Heildarsamtök sjómanna verði að bregðast við því með því að hefja þegar í stað viðræður við Landssamband smábátaeigenda um gerð kjarasamnings. Í hverri viku hafi sjómenn víða um land samband við skrifstofu Framsýnar til að lýsa yfir óánægju sinni með að ekki sé til staðar kjarasamningur fyrir smábátasjómenn. Þá sé full ástæða til að hafa áhyggjur af því mikla álagi sem sé á sjómönnum sem róa á línubeitningabátum. Í því sambandi beri útgerðarmönnum að virða gildandi lög og reglur um hvíldartíma sjómanna. Ábyrgð þeirra sé mikil komi til alvarlegra sjóslysa.

Þess ber að geta að Framsýn hefur ekki setið hjá þrátt fyrir að ekki hafi tekist að gera kjarasamning á landsvísu. Félagið hefur undanfarna mánuði átt í viðræðum við Svæðisfélagið Klett félag smábátaeigenda frá Ólafsfirði að Tjörnesi um kaup og kjör sjómanna á smábátum á Húsavík. Í gær ítrekaði félagið kröfuna við forsvarsmenn Kletts að gengið yrði frá kjarasamningi milli aðila sem fyrst. Viðræður munu væntanlega halda áfram eftir helgina.