Góðum fundi lokið hjá sjómönnum

Sjómannadeild Framsýnar stóð fyrir aðalfundi deildarinnar í kvöld. Góð mæting var á fundinn. Fjölmörg mál voru á dagskrá fundarins. Jakob Gunnar Hjaltalín var endurkjörinn formaður. Auk venjulega aðalfundarstarfa voru kjaramál sjómanna mikið til umræðu enda hafa samningar sjómanna verið lausir frá ársbyrjun 2011. Eftir miklar og góðar umræður var eftirfarandi ályktun samþykkt:

Ályktun
Um kjaramál sjómanna

Aðalfundur Sjómannadeildar Framsýnar skorar á SFS/LÍÚ að ganga nú þegar frá nýjum kjarasamningi við samtök sjómanna.

Að mati fundarins er ólíðandi með öllu að útgerðarfyrirtækin í landinu skuli ekki sjá sóma sinn í því að undirrita kjarasamning sem byggi á kröfugerð sjómannasamtakana.

Það að sjómenn séu búnir að vera samningslausir frá 1. janúar 2011 lýsir best framkomu útgerðarmanna í garð sjómanna, framkomu sem sjómenn geta ekki liðið mikið lengur.“

Leiðtogi sjómanna á Húsavík, Jakob Gunnar Hjaltalín var endurkjörinn í kvöld sem formaður Sjómannadeildar Framsýnar en hann hefur verið það til fjölda ára. Með honum í stjórn eru: Kristján Þorvarðarson varaformaður, Björn Viðar ritari og meðstjórnendur Snorri Gunnlaugsson og Kristján Hjaltalín.

Frekari myndir frá fundinum: