249 félagsmenn á kjörskrá – gerðu athugasemdir við kjarasamninginn

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni hefur Starfsgreinasamband Íslands sem Framsýn á aðild að gengið frá kjarasamningi við Samband íslenskra sveitarfélaga. Samningurinn verður kynntur á næstu dögum á félagssvæði Framsýnar. Atkvæðagreiðsla um samninginn verður rafræn og munu félagsmenn Framsýnar sem starfa hjá sveitarfélögum á svæðinu, samtals 249 starfsmenn, fá kjörgögn og upplýsingar um samninginn til sín í pósti á næstu dögum. Kjarasamningurinn sem gildir í fjögur ár inniheldur svipaðar hækkanir og aðrir kjarasamningar sem gengið hefur verið frá síðustu vikurnar. Vegna fyrirspurna sem borist hafa Skrifstofu stéttarfélaganna frá félagsmönnum er rétt að taka fram að Framsýn eitt félaga gerði athugasemdir við eftirfarandi ákvæði í kjarasamningnum:

1. INNGANGUR
„Aðilar eru sammála um að vinna samkvæmt þeirri launastefnu sem lagður var grunnur að með rammasamkomulagi milli aðila vinnumarkaðar, sem undirritað var 27. október 2015, sjá fylgiskjal III.“

Framsýn taldi afar óeðlilegt að binda félögin með þessum hætti ekki síst þar sem rammasamkomulag aðila vinnumarkaðarins frá 27. október 2015 er nú rekið fyrir Félagsdómi, svo kallað Salek samkomulag. Önnur félög innan Starfsgreinasambandsins töldu ekki ástæðu til að gera athugasemdir við innganginn að samningnum.

Framsýn gerði athugasemdir við inngang kjarasamnings Starfsgreinasambands Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga.