Fjarar undan SALEK – afstýrum ofbeldi

Að gefnu tilefni er rétt að taka fram að Framsýn, stéttarfélag leggst alfarið gegn hugmyndafræði SALEK hópsins eins og hún hefur verið lögð fram þar sem hún stenst ekki lög um stéttarfélög og vinnudeilur.Formaður félagsins gerði alvarlegar athugasemdir við samkomulagið á formannafundi Alþýðusambands Íslands sem haldinn var 28. október þar sem málið var tekið til umræðu og afgreiðslu á fámennum fundi. Fjögur stéttarfélög auk Framsýnar lögðust gegn samkomulaginu.

Það er alveg ljóst, reyndar óumdeilanlegt að samkomulagið brýtur gegn ákvæðum laga um stéttarfélög og vinnudeilur frá árinu 1938 nr. 80.

Í fimmtu grein stendur;
„Stéttarfélög eru lögformlegur samningsaðili um kaup og kjör meðlima sinna, enda hafi félagið í samþykktum sínum ákveðið að láta starfsemi sína taka til slíkra málefna.“

Sjá 5. greinina úr lögum um stéttarfélög og vinnudeilur í heild sinni í meðfylgjandi skjali sem fylgir þessari grein.

Á formannafundi ASÍ stigu reyndir verkalýðsforingjar fram og sögðu samkomulagið vera skerðingu á samningsrétti stéttarfélaganna. Svo því sé haldið til haga, þá var forseti ASÍ ekki sammála þessum skoðunum og taldi svo ekki vera.

Gagnrýni á samkomulagið nær langt út fyrir verkalýðshreyfinguna og fyrrverandi varaforseta ASÍ Hervari Gunnarssyni er misboðið og skrifar inn á facebook síðu Alþýðusambandsins:

„Hér talar ASÍ eins og „það“ sé eitthvað annað en „hugtak“. „Hugtak“ hefur ekki sjálfstæðan vilja eða rödd og því bera að lesa allt sem hér er skrifað í nafni ASÍ sem skrif Gylfa Arnbjörnssonar. Í þeim skrifum sem hér hafa komið fram og eru eignuð sambandinu kemur greinilega fram sami hrokinn og gjarnan einkennir orðræðu Gylfa. Um SALEK-samkomulagið hef ég það að segja að það er lúmsk tilraun til að taka lögvarinn samningsrétt af stéttarfélögum á Íslandi.“

Svo skrifar Hervar Gunnarsson og tekur þar með undir skoðanir Framsýnar og þeirra stéttarfélaga sem búa yfir mikilli reynslu á þessu sviði og mótmælt hafa SALEK samkomulaginu.

Það er alveg ljóst að SALEK samkomulagið getur ekki bundið samtök launafólks ákveðnum hlekkjum sem byggja á því að búið sé að ákveða hverjar launabreytingar megi vera í frjálsum samningum burtséð frá getu atvinnulífsins til að greiða hærri laun eða krafna viðkomandi stéttarfélaga á hverjum tíma s.s. varðandi séraðgerðir vegna hækkunar lægstu launa.

Fingraför SALEK samkomulagins birtast víða um þessar mundir og forystumenn samtaka launafólks tala um að samkomulagið trufli verulega allar samningaviðræður. Þá er athyglisvert að nýr kjarasamningur milli Starfsgreinasambands Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga lá nánast á borðinu og beið undirskriftar þegar kippt var í spotta með þeim afleiðingum að deilan fór í hnút. Þessi viðsnúningur tengist án efa málarekstri Verkalýðsfélags Akraness sem stefnt hefur aðilum samkomulagsins fyrir Félagsdóm þar sem félagið telur líkt og Framsýn samkomulagið vera brot á samningsfrelsi stéttarfélaga. Ekki er ólíklegt að samningaviðræður muni að mestu liggja niðri meðan málið er til umfjöllunar í Félagsdómi. Ákveðnir aðilar halda því samt sem áður fram að SALEK samkomulagið sé ekki skerðing á samningafrelsi stéttarfélaga. Í hvaða heimi búa þessir menn?

Fyrir liggur að um 70% samtaka launafólks falla undir samkomulagið. Hvað með hin 30% sem ekki eru aðilar að samkomulaginu eða launaskriðið sem verður alltaf til staðar, hvernig ætlar SALEK hópurinn að ná yfir þessa aðila þegar kemur að því að mynda ramma yfir leyfðar launahækkanir? Hvernig ætlar SALEK að ná yfir eigin samtök? Hver man ekki eftir því þegar Samtök atvinnulífsins réðust í mjög dýra auglýsingaherferð fyrir síðustu kjarasamninga þar sem varað var við því að skúringakonur kæmust upp í 300.000 króna lágmarkslaun á þremur árum. Slíkar hækkanir myndu kalla á aðra kreppu og verðbólgu sem menn hefðu aldrei séð áður á Íslandi. Svigrúmið til launahækkana væri um 3%. Á sama tíma læddist stjórnarformaður Samtaka atvinnulífsins sem jafnframt er forstjóri Icelandair Group út um neyðarglugga á húsi atvinnulífsins og samdi við flugmenn og flugstjóra hjá Flugleiðum við kertaljós í gluggalausu herbergi út í bæ um ríflegar launahækkanir. Væntanlega hefur kjarasamningurinn verið grafinn í jörðu eftir undirskriftina þar sem illa hefur gengið að fá hann afhentan til skoðunar.

Er þetta nýja samningamódelið sem SALEK hópurinn boðar og þar með Samtök atvinnulífsins? Er þetta hið margumtalaða Norræna samningamódel? Nei takk. Á Norðurlöndum ríkir stöðugleiki í stjórnmálum sem ekki er fyrir að fara á Íslandi og þar ríkir einnig traust milli viðsemjenda á vinnumarkaði sem byggir á jöfnuði og velferð allra, ekki bara sumra hópa eins og á Íslandi.

Er ekki jafnframt sérstakt hvað kynning á SALEK samkomulaginu hefur verið af skornum skammti. Sá sem þetta skrifar fékk eina mjög stutta kynningu á samkomulaginu hjá Starfsgreinasambandi Íslands nokkrum mínútum áður en skrifað var undir samkomulagið 27. október við hátíðlega athöfn. Það var sem kynningunni hefði verið laumað inn á fundinn þar sem hún var ekki í upprunalega fundarboðinu. Þá reikna ég ekki með því að stéttarfélögin hafi almennt tekið samkomulagið til umfjöllunar eða afgreiðslu í félögunum enda hefur mikil dulúð fylgt verkefninu frá upphafi. Ég tek heilshugar undir með þeim lögfræðingi sem ég talaði við sem sagði samkomulagið vera ofbeldi gegn lögum um stéttarfélög og vinnudeilur og spurði, af hverju menn hefðu ekki gefið sér meiri tíma til að skoða málið betur í stað þess að fara fram með þessu mikla offorsi.

Framsýn tekur heilshugar undir ákvörðun Verkalýðsfélags Akraness að stefna öllum aðilum SALEK samkomulagsins fyrir Félagsdóm. Dómnum er ekki annað fært en að dæma samkomulagið ógilt þar sem samkomulagið er skerðing á samningsrétti og frelsi stéttarfélaga til að gera kjarasamninga á sínum forsendum. Þá getur SALEK hópurinn ekki undir neinum kringumstæðum bundið aðila sem standa utan rammasamkomulagsins við ákvæði samkomulagsins. Slík framsetning gengur einfaldlega ekki upp.

Til fróðleiks má geta þess að eftirtalin stéttarfélög greiddu atkvæði gegn SALEK samkomulaginu á formannafundi ASÍ:

Framsýn, stéttarfélag
Þingiðn, félag iðnaðarmanna í Þingeyjarsýslum
Verkalýðsfélag Akranes
Verkalýðsfélag Grindavíkur
Vélstjóra- og sjómannafélag Grindavíkur

Höfundur: Aðalsteinn Árni Baldursson

Meðfylgjandi: Lög um stéttarfélög og vinnudeilur, 1938 nr. 80 11. júní

5.gr. Stéttarfélög eru lögformlegur samningsaðili um kaup og kjör meðlima sinna, enda hafi félagið í samþykktum sínum ákveðið að láta starfsemi sína taka til slíkra málefna.

[Samninganefnd eða fyrirsvarsmaður, sem kemur fram fyrir hönd samningsaðila við gerð kjarasamnings, hefur umboð til þess að setja fram tillögur að samningi, taka þátt í samningaviðræðum og undirrita kjarasamning fyrir hönd hlutaðeigandi félags eða samtaka. Samninganefnd er heimilt að fela sameiginlegri samninganefnd fleiri félaga eða sambanda umboð sitt til samningsgerðar að hluta eða að öllu leyti. Þá er samninganefnd heimilt að kveða á um sameiginlega atkvæðagreiðslu félagsmanna hlutaðeigandi félaga eftir því sem nefndin kann að ákveða hverju sinni eða um kann að semjast með kjarasamningi.

Þegar kjarasamningur hefur verið undirritaður af til þess bærum fulltrúum samningsaðila gildir hann frá undirskriftardegi sé ekki á annan veg samið, nema hann sé felldur við leynilega atkvæðagreiðslu með meiri hluta greiddra atkvæða og minnst fimmtungs þátttöku samkvæmt atkvæða- eða félagaskrá innan fjögurra vikna frá undirritun. Fari fram almenn leynileg póstatkvæðagreiðsla meðal félagsmanna um gerðan kjarasamning gildir niðurstaða hennar óháð þátttöku. Nú tekur kjarasamningur einungis til hluta félagsmanna eða starfsmanna fyrirtækis og er þá heimilt að ákveða í samningnum að þeir einir séu atkvæðisbærir um hann, enda komi þar skýrt fram hvernig staðið verði að atkvæðagreiðslu.

Standi [tvö eða fleiri stéttarfélög]1) að gerð kjarasamnings, vinnustaðarsamnings, fyrir félagsmenn á sama vinnustað skal hann borinn sameiginlega undir atkvæði allra félagsmanna sem hann tekur til og ræður meiri hluti niðurstöðu. Um gildistöku og afgreiðslu vinnustaðarsamnings fer að öðru leyti samkvæmt ákvæðum [3. mgr.]1)

Skylt er samningsaðilum að stuðla að því að félagsmenn þeirra virði gerða kjarasamninga.]2)

1)L. 20/2001, 1. gr. 2)L. 75/1996, 1. gr.