Starfsmat sveitarfélaga var til umræðu á fjármálaráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga og var afturvirkni þess gagnrýnd harðlega. Í samningunum 2008 var ákveðið að þróa starfsmatskerfið áfram og hefur verið unnið að endurskoðun þess síðan 2012. Í samningunum 2014 var síðan samið um að starfsmatið myndi gilda frá 1. maí 2014. Ef að sveitarstjórnarmenn telja að þarna hafi verið undirritaður óútfylltur tékki, þá hafa þeir ekki mikið fylgst með því sem er að gerast í kring um þá. Reykjavíkurborg gat greitt sínu fólki út samkvæmt endurskoðuðu starfsmati í desember 2014. Tafir á útgreiðslu á leiðréttum launum til starfsmanna annarra sveitarfélaga stafa að stórum hluta af því að þau gögn sem þurfti að fá til að vinna eftir skiluðu sér ekki frá sveitarfélögunum til framkvæmdanefndar um starfsmat. Þegar starfsmatið kemst loksins í gagnið er það að sjálfsögðu afturvirkt eins og um var samið.
Það eru kaldar kveðjur frá fjármálaráðstefnunni til starfsfólks sveitarfélaganna sem berast gegnum heimasíðu Sambandsins og verður ekki til að liðka fyrir þeim samningaviðræðum sem nú standa yfir. Félagsmenn Framsýnar og Starfsmannafélags Húsavíkur munu ekki láta bjóða sér það að fá ekki leiðréttingu á sín kjör samkvæmt nýju starfsmati og í gegnum yfirstandandi kjaraviðræður samningsaðila.