Vonandi misskilningur – fjármagn til flugvallarins skorið niður

Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni Baldursson, segir nýútkomið fjárlagafrumvarp ríkistjórnarinnar valda miklum áhyggjum vegna um 25% niðurskurðar á fjárveitingum til innanlandsflugvalla. Þannig er allt fjármagn til viðhalds og nýframkvæmda á flugvöllunum skorið niður. Þetta er sérstaklega slæmt í ljósi þess að til stóð að fara í brýnar viðhaldsframkvæmdir á Húsavíkurflugvelli á næsta ári, m.a. á flugbrautinni og ljósabúnaði segir Aðalsteinn. Einnig útiloki frumvarpið að keyptur verði aðflugsbúnaður fyrir flugvöllinn eins og væntingar hafi verið um. Aðalsteinn segist hafa miklar áhyggjur af framtíð flugvallarins verði frumvarpið óbreytt að lögum og reyndar skilur hann ekki framsetninguna sem er á skjön við uppbygginguna sem framundan er á Húsavík og nýleg loforð ríkistjórnarinnar um 500 m.kr. tímabundið framlag til flugvalla á landsbyggðinni. Hvað varð um framlagið spyr Aðalsteinn?

Eftirfarandi er tekið beint úr frumvarpinu:
672 Flugvellir og flugleiðsöguþjónusta. „Gert er ráð fyrir að fjárheimild liðarins lækki um 516,5 m.kr. að raungildi frá fjárlögum yfirstandandi árs. Annars vegar er gert ráð fyrir að niður falli 500 m.kr. tímabundið framlag til viðhalds flugvalla á landsbyggðinni. Hins vegar er lögð til 16,5 m.kr. lækkun útgjalda til að mæta aðhaldsmarkmiðum í frumvarpinu.“

Formaður Framsýnar undrar sig á niðurskurðinum í fjárlagafrumvarpinu er viðkemur flugvellinum á Húsavík. Óskiljanlegt, segir Aðalsteinn og skorar á fjármálaráðherra og ríkistjórnina að tryggja eðlilegt viðhaldsfé til flugvallarins á Húsavík.