Kalla eftir upplýsingum frá ráðherra um úrræði í húsnæðismálum

Framsýn hefur óskað eftir upplýsingum frá félags- og húsnæðismálaráðherra varðandi uppbyggingu á 2.300 félagslegum íbúðum á næstu árum á vegum ríkisins og samstarfsaðila. Félagið er hér að vitna til yfirlýsingar ríkistjórnarinnar sem fylgdi síðustu kjarasamningum. Spurt er út í áætlaðan fjölda nýrra íbúða á félagssvæði Framsýnar. Bréfið er svohljóðandi:

Velferðarráðuneytið
Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra
Hafnarhúsinu við Tryggvagötu
101 Reykjavík

Varðar yfirlýsingu ríkistjórnarinnar um húsnæðismál

Framsýn, stéttarfélag bindur miklar vonir við yfirlýsingu ríkistjórnarinnar um húsnæðismál sem fylgdi kjarasamningum aðila vinnumarkaðarins sem undirritaðir voru 29. maí 2015.

Samkvæmt yfirlýsingunni skuldbindur ríkistjórnin sig í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök atvinnulífsins og verkalýðshreyfinguna til að skapa bætt skilyrði fyrir uppbyggingu á húsnæðismarkaði. Stuðlað verði að því að landsmenn hafi aukið val um búsetuform og búi við meira öryggi í húsnæðismálum í samræmi við þarfir hvers og eins, einkum tekjulágar fjölskyldur.

Markmiðið verði eftirfarandi:

1. Fjölgun hagkvæmra og ódýrra íbúða

2. Aukið framboð húsnæðis og lækkun byggingakostnaðar

3. Stuðningur við almennan leigumarkað

4. Stuðningur við kaup á fyrstu íbúð

Í yfirlýsingunni kemur jafnframt fram að ráðist verði í átak um byggingu félagslegra leiguíbúða. Stefnt er að því að byggja 2.300 íbúðir á næstu fjórum árum, þ.e. á árunum 2016-2019, þó að hámarki 600 íbúðir á ári. Í framhaldi af því verði þörfin metin.

Þar sem fyrir liggur að fyrirsjáanlegur er töluverður skortur á félagslegum leiguíbúðum á Húsavík vegna mikilla framkvæmda á svæðinu og fjölgunar íbúa þegar starfsemin á Bakka verður komin í fullan gang veltir félagið fram eftirfarandi spurningum til ráðherra félags- og húsnæðismála:

Hvað má reikna með að byggðar verði margar íbúðir á Húsavíkursvæðinu sem byggja á forsendum yfirlýsingar ríkistjórnarinnar?

Er búið að útfæra tillögur um hvar þessar 2.300 íbúðir verða byggðar?

Verður horft til þess að byggja þær á höfuðborgarsæðinu eða verður um jöfnuð milli landshluta að ræða?

Frekari upplýsingar gefur undirritaður.

Húsavík 8. september 2015

Virðingarfyllst

Fh. Framsýnar, stéttarfélags

Aðalsteinn Árni Baldursson

Mikil þörf er fyrir félagslegar íbúðir á Húsavík. Framsýn kallar eftir svörum frá ráðherra félags- og húsnæðismála varðandi uppbyggingu á félagslegum íbúðum svæðinu.