Stéttarfélögin fjárfesta í bifreið

Vegna aukinna umsvifa í starfsemi stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum ekki síst vegna framkvæmda á Þeistareykjum og Bakka hafa félögin fjárfest í notaðri bifreið að Nissan gerð. Stéttarfélögin verða með starfsstöð á Þeistareykjum sem opnuð verður formlega síðar í þessum mánuði og verða ferðir starfsmanna stéttarfélaganna því tíðar upp á Þeistareyki. Bifreiðin var afhend nýjum eigendum í gær. Þá verður bifreiðin einnig notuð til að sinna vinnustaðaheimsóknum á svæðinu ekki síst í ferðaþjónustunni þar sem mikil þörf er á eftirliti enda töluvert um kjarasamningsbrot í þeirri grein. Starfsmaður VIRK á svæðinu mun einnig fá bílinn til afnota fyrir starfsemi Virk í Þingeyjarsýslum. Félagssvæði stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum er verulega stórt en það nær frá Vaðlaheiði í vestri til Bakkafjarðar í austri en félagssvæði Verkalýðsfélags Þórshafnar nær þangað meðan félagssvæði Framsýnar nær til Raufarhafnar. Með kaupunum sparast töluverður kostnaður við bílaleigubíla.

Bifreiðin komin í notkun. Stjórn Alþýðusambands Norðurlands fundaði á Húsavík í gær og óskaði jafnframt eftir skoðunarferð um Bakkasvæðið. Að sjálfsögðu var orðið við þeirri beiðni og var nýi bíllinn notaður við það tækifæri í fyrsta skiptið.