Fróðlegar upplýsingar í gegnum fuglamerkingar

Fuglamerkingar hafa verið stundaðar á Íslandi síðan árið 1921. Árlega eru merktir þúsundir fugla hér á landi og er sú vinna í höndum fuglaáhugamanna og fuglafræðinga sem fengið hafa tilskilið merkingaleyfi. Stýrihópur á vegum Náttúrufræðistofnunar sér um skipulagningu og allt utanumhald merkinganna. Samkvæmt vef Náttúrufræðitofnunar http://www.ni.is/ voru árið 2014 merktir hér á landi rúmlega 19.000 fuglar af 79 tegundum.

Fuglamerkin eru margskonar, allt frá einföldum númeruðum merkjum úr málmi upp í hátæknibúnað eins og gervihnattasenda.Við sérstakar rannsóknir eru oft notaðir ágrafnir plasthringir á háls eða fætur, t.d. á gæsir og álftir. En hefðbundnar merkingar byggjast á málmmerki með ágröfnu númeri sem er einstakt fyrir hvern fugl og heimilisfangi merkingarstöðvar.

Síðustu áratugi hafa radíósendar verið notaðir hér á landi, en slíkar merkingar gera mönnum kleift að fylgjast nánar með ferðum fuglanna en unnt er með hefðbundnum merkingum. Þá hafa gervitunglasendar verið notaðir á villta fugla en eingöngu þá stærri sem geta auðveldlega borið slík tæki , slíkir sendar gera mönnum kleift að fylgjast með ferðalögum fuglanna frá degi til dags. Nýjasta tæknin eru svokallaðir dægurritar (geolocator). Þeir safna upplýsingum um staðsetningu út frá birtutíma (daglengd) og veita þannig upplýsingar um vetrarstöðvar og farhætti viðkomandi fugla. Dægurritar eru minni en sendar svo þá má festa á mun smærri fugla, þeir eru fyrst og fremst hentugir á fugla sem ferðast langar leiðir og hafa verið notaðir hér á landi í nokkur ár. Fugla sem á eru settir dægurritar þarf að handsama ári síðar svo unnt sé að lesa úr gögnunum.

En skyldi nú vera einhver tilgangur með því að merkja alla þessa fugla? Jú,merkingar sem þessar gefa miklar upplýsingar og eru eins og gefur að skilja afar mikilvægar við allar rannsóknir á fuglum. Með þeim má t.d.afla upplýsinga um ferðir fugla innanlands og eins um ferðalög þeirra milli landa. Merkingar á ungum eru oft eina leiðin til að komast að því hve fuglar ná háum aldri, finna út hvenær þeir verða kynþroska og fara að verpa. Merkingar geta einnig gefið ýmsar aðrar stofnvistfræðilegar upplýsingar s.s. um dánartíðni, dánarorsakir, aldursdreifingu í stofni, stofnstærð og fleira. Byggt á upplýsingum af http://www.ni.is/

Heimasíða stéttarfélaganna er alltaf með puttana á púlsinum og fréttaritari hennar fékk að fylgjast með fuglamerkingafólki að störfum.

Hér eru þau Lára Rúnarsdóttir og Sverrir Thorsteinsson að merkja lóuunga. Unginn fær fótmerki og það verður fróðlegt að vita hvert um heiminn leið hans kemur til með að liggja. Samkvæmt náttúruverndarlögum ber öllum sem finna merkta fugla skylda til að skila merkinu til Náttúrufræðistofnunar. Þetta á við hvort sem um er að ræða íslenskt merki eða erlent.

Álftir fella flugfjaðrirnar síðsumars, eru þá ófleygar og þá er talað um að þær séu“ í sárum“. Sverrir og aðstoðarmenn hans handsama álftirnar á þessum tíma til merkinga, gjarnan á vötnum og nota þau gúmmíbátinn Svandísi til þæginda við verkið. Þarna er Sverrir að koma að landi á Kálfborgarárvatni , farþegarnir álftir sem virðast bíða spenntar eftir að fá álestur fótmerkja eða jafnvel ný litmerki á fætur.

Álftirnar eru færðar í sérstök vesti meðan þær bíða þess að verða merktar og skráðar. Vestin veita þeim ákveðið aðhald og eru ætluð til þess þær verði sem rólegastar á meðan verið er að skoða þær. Þess má geta að tvær elstu álftir í Evrópu eru þingeyskar og voru merktar vötnum á Fljótsheiði , þær verða 29 ára í ár og sáust báðar hér í fyrrasumar.

Þessi smyrilsungi virtist ekki spenntur fyrir því að láta handfjatla sig en þáði þó þetta fína ökklaskraut hjá Sverri Thorst.

Þeir voru ekki sérstaklega gestrisnir smyrilsungarnir og víst er að þeir myndu seint teljast augnayndi.

Húsmóðirin á smyrilsheimilinu fékk það hlutverk að bera dægurrita næsta árið og reynt verður að fanga hana aftur á sama stað að ári til þess hægt verði að að lesa af ritanum.

Smyrla fær fína hettu meðan festur er á hana búnaður og gerðar á henni hávísindalegar rannsóknir. Hettan róar hana aðeins en henni tekst samt að læsa klónum í annan vísindamanninn.

Þessa karla myndi líklega einhver flokka undir furðufugla. Sverrir Thorsteinsson og Ólafur Einarsson skrá allar upplýsingar um Smyrlu og undirbúa aðgerðir.

Ólafur saumar búnaðinn á kerlinguna og þræðir nálina með tannþræði, hann notar æðaklemmur við verkið, bróderar ritann fínlega á sinn stað og ber sig að eins og útlærður æðaskurðlæknir. Allt hárnákvæmt hjá þeim félögum og eftir settum reglum.