Gott að vera kolla á Sævarenda

Á bænum Sævarenda í Loðmundarfirði er rekið myndarbú. Þar er þó ekki hefðbundinn búskapur með kýr og kindur,heldur byggist búskapurinn á æðarfugli. Það er í mörgu að snúast þessa dagana hjá æðarbændum , en á Sævarenda búa hjónin Ólafur Aðalsteinsson og Jóhanna Óladóttir. Þau leigja jörðina og nytja æðarvarpið og hafa því aðsetur á Sævarenda hluta úr árinu. Það hafa þau gert síðan árið 2003 en búa annars og starfa á Borgarfirði eystri. Óli og Jóffa eru mætt í ,,Lommann,, til að taka á móti fyrstu kollunum á vorin og dvelja þar í góðu yfirlæti fram eftir sumri, eða þar til dúnninn hefur verið þurrkaður. Það er mikil vinna í kringum varpið sem einnig þarf að verja gegn ágangi vargs, en ránfuglar, minkar og tófur eru tíðir gestir í æðarvörpum. Barnabörnin bíða spennt eftir því að komast í vinnumennsku til afa og ömmu, og eru ólöt að hjálpa til. Það er heldur ekkert sem truflar í sveitinni, hvorki tölva né sjónvarp,enda er nóg við að vera á Sævarenda. Þó svo að ófært sé landleiðina í til Loðmundarfjarðar er stundum skutlast sjóleiðina á báti sem er í eigu fjölskyldunnar og er staðsettur á Norðfirði. Það leynir sér ekki að það er vel hugsað um kollurnar á Sævarenda sem hafa val um margs konar búsetumöguleika. Þær búa í einbýli, parhúsum, raðhúsum, kommúnum, jafnvel á tveimur hæðum, þeim er aðeins boðið það besta. Hugmyndaflug húsbóndans fær þar greinilega að njóta sín og því virðist engin takmörk sett, en Óli notar veturinn til að úthugsa nýjar búsetuleiðir fyrir kollurnar sínar. Sævarendabændur hafa byggt upp æðarvarpið af miklum dugnaði og hlúð að því að alúð og natni, enda fjölgar kollunum með hverju árinu. Litla varpið á Sævarenda sem taldi nokkur hundruð æðarkollur árið 2003 telur nú hátt í 4000 kollur. Það er því geinilega gott að vera kolla á Sævarenda.