Stéttarfélögin opna skrifstofu á Þeistareykjum

Fulltrúar Framsýnar og Þingiðnar funduðu í dag með fulltrúum Landsvirkjunar og LNS Saga á Þeistareykjum. Meðal annars var farið yfir samskiptamál og önnur atriði sem aðilar ætla að vinna sameiginlega að til að gera starfsumhverfið sem best fyrir starfsmenn á Þeistareykjum. Algjör samstaða er um það meðal stéttarfélaganna, Landsvirkjunar og LNS Saga að tryggja að þetta markmið náist.  Aðilar ætla að funda reglulega og fara yfir öryggismál og þau atriði sem koma upp milli funda en reiknað er með reglulegum fundum í hverjum mánuði meðan framkvæmdirnar standa yfir. Þá hefur Landsvirkjun boðið stéttarfélögunum aðstöðu fyrir skrifstofu sem byggir á ákvæðum kjarasamninga. Stéttarfélögin reikna með að vera með fasta viðtalstíma á Þeistareykjum og þá er til skoðunar að ráða sérstakan starfsmann til að fylgja málum eftir á öllu framkvæmdasvæðinu, það er á Þeistareykjum, með lagningu háspennulínu og með uppbyggingunni á Bakka og við Húsavíkurhöfn. Það verður gert í fullu samráði við landssambönd ASÍ sem eiga hagsmuna að gæta og þeim ábyrgðaraðilum og verktökum sem koma að þessari miklu framkvæmd. Sjá myndir frá heimsókninni í dag:

Lagt er upp úr góðu samstarfi aðila, Sveinn og Guðmundur frá LNS Saga og Einar frá Landsvirkjun sáttu fundinn í dag ásamt fulltrúum Þingiðnar og Framsýnar, þeim Aðalsteini og Ósk frá Framsýn og Jónasi frá Þingiðn.

Þessar konur keyra sig daglega frá Húsavík í vinnu upp á Þeistareyki. Fjöldi fólks hefur hafið vinnu á svæðinu sem kemur víða að.

Hér er gott að vera og brjálað að gera, þessir starfsmenn voru á vegum Trésmiðjunar Rein á Þeistareykjum.

Það þarf að bora og bora. Þessi starfsmaður var á vegum Víkurrafs á Húsavík að leggja fyrir rafmagni í mötuneyti LNS Saga.

Jónas og Aðalsteinn fara yfir málin með Gauta matreiðslumanni en starfsfólkið í mötuneytinu kappkostar að bjóða starfsmönnum LNS Saga upp á góðar veitingar.

Það er mikið af stórvirkum tvinnuvélum á svæðinu. Hér er Sigurður gröfumaður við störf.

Ósk Helgadóttir varaformaður Framsýnar er hér ásamt Jónasi og Einari frá Landsvirkjun.

Formenn Þingiðnar og Framsýnar skoðuðu í dag húsnæði sem félögin fá til afnota á næstu dögum á Þeistareykjum. Hugmyndin er að opna þjónustuskrifstofu fyrir starfsmenn á svæðinu.