Óhætt er að segja að hátíðarhöld stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum verði glæsileg 1. maí. Ræðumenn verða formaður og varaformaður Framsýnar. Gleðigjafinn Jóhannes Kristjánsson verður með gamanmál. Snillingurinn Óskar Pétursson syngur nokkur lög auk þess sem þrjár magnaðar og landsfrægar söngkonur taka lög með Tinu Turner. Þetta eru þær Regína Ósk Óskarsdóttir, Bryndís Ásmundsdóttir og Sigríður Beinteinsdóttir. Vert er að geta þess að um frumflutning er um að ræða þar sem tónlistarhátíðin sem tileinkuð er ferli Tinu Turner verður 2. maí í Hörpu. Stúlknakór Húsavíkur verður á svæðinu undir stjórn Ástu Magnúsar og Steini Hall blæs í lúður eins og enginn sé morgundagurinn. Full ástæða er til að hvetja fólk til að fjölmenna í höllina, ekki síst á þessum tímum þegar mikil ólga er á vinnumarkaðinum.
Á hverju ári er haldinn fjölmenn hátíð á Húsavík vegna baráttudags verkafólks, 1. maí. Látum okkur ekki vanta í höllina. Sjá má dagskrá hátíðarhaldanna á forsíðu heimasíðunnar.