Fjölmenni var á kynningarfundi verktakafyrirtækisins LNS Saga í morgun sem er íslenskt fyrirtæki en móðurfyrirtækið er til heimilis í Noregi. Fyrirtækið stóð fyrir fundi um væntanlega uppbyggingu Landsvirkjunar á Þeistareykjum á næstu árum. Fundurinn var haldinn í samstarfi við Framsýn. Allar áætlanir gera ráð fyrir að 45 MW virkjun á vegum Landsvirkjunar verði klár í árslok 2017. Þá kom fram á fundinum að framkvæmdir munu hefjast í vor enda verði þá búið að hnýta alla lausa enda. Um 100 starfsmenn munu koma að þeim verkáföngum sem verða á vegum LNS Saga. Fyrirtækið kemur til með að sjá upp uppbyggingu á stöðvarhúsinu og gufuveitulögnum. Fyrir liggur að mikil umsvif verða í kringum verkið en reisa þarf mötuneyti og vinnubúðir fyrir um 100 manns auk mikilla flutninga á landi og sjó sem fylgja verki sem þessu. Greinilegt er að forsvarsmenn LNS Saga leggja mikið upp úr góðu samstarfi við verktaka og þjónustuaðila á svæðinu og óskuðu þeir eftir góðu samstarfi við þá á fundinum sem var að ljúka. Almenn ánægja var með fundinn og sáu þingeyskir verktakar ástæðu til að þakka verktakafyrirtækinu fyrir góðan fund en þeir sjá mörg tækifæri varðandi samstarf um uppbygginguna á Þeistareykjum. Hér koma nokkrar myndir sem sýna stemninguna sem var á fundinum í morgun.