Hvar eru þingmennirnir?

Nokkrir atvinnurekendur og forsvarsmenn stéttar- og félagasamtaka tóku tal saman á götuhorni á Húsavík. Að sjálfsögðu voru mörg hagsmuna- og framfaramál á svæðinu tekin til umræðu s.s. atvinnuástandið, uppbyggingin á Bakka, sjávarútvegsmál, flutningur á kvóta úr bænum og þróunin sem orðið hefur í ferðaþjónustu á svæðinu sem er sífellt að eflast. Já menn voru nokkuð brattir með sig þrátt fyrir ákveðna erfiðleika í atvinnulífinu og fólksfækkun. Þeir söknuðu þess að sjá ekki þingmenn kjördæmisins oftar, svo virtist sem þeir hefðu lítinn áhuga fyrir því að heimsækja vinnustaði og fræðast um málefni fyrirtækja, stéttarfélaga og svæðisins í heild. Nú væri svo komið að kjósendur þekktu ekki nema að hluta þá þingmenn sem sitja á þingi. Hér áður fyrr hefðu þingmenn verið miklu meira áberandi og lagt upp úr því að vera í góðu sambandi við atvinnulífið í sínum kjördæmum.

Þingmenn mættu vera miklu duglegri við að heimsækja vinnustaði á svæðinu þar sem sú tenging er mjög mikilvæg. Þá er lítið um að þingmenn komi við á Skrifstofu stéttarfélaganna til að fræðast um atvinnuástandið og mannlífið sem stéttarfélögin hafa góða yfirsýn yfir. Þingmenn eru alltaf velkomnir á Skrifstofu stéttarfélaganna